149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Mér finnst að það sé komin einhvern tónn í forseta, að honum þyki þessi umræða orðin löng. En það er mikil hætta á að hún verði töluvert lengri, menn leggja nú ekki mikið á sig að svara þeim spurningum sem við höfum beint til fylgjenda þessa máls. Ef forseti gæti nú eitthvað liðkað til eða hnippt í menn og beðið þá að koma hér upp og svara okkur þá væri það vel þegið.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er rétt sem hv. þingmaður kom hér inn á, að það er vitanlega búið að upplýsa okkur um nýja eða breytta hluti í þessu máli öllu saman, eins og t.d. með sæstrenginn. Búið er að ítreka og taka af allan vafa um að svokallaður fyrirvari er einskis virði í rauninni þegar kemur að einkaaðilum eða aðilum öðrum en ríkisstjórninni. Það hefur komið í ljós. Einnig er búið að rifja hér upp að það kom í ljós að fjórði orkupakkinn tilbúinn. Það er svo margt sem hefur skýrst í þessari umræðu allri saman. Það eina sem hefur ekki skýrst er hvers vegna stjórnarmeirihlutinn leggur svona mikla áherslu á þetta mál. Við vitum af hverju Samfylkingarflokkarnir vilja það, en hvers vegna vill stjórnarmeirihlutinn gera það?

Maður fer að velta fyrir sér: Af hverju þessi þögn? Er verið að leyna okkur einhverju? Ég held að ég varpi nú yfirleitt ekki fram svona vangaveltum í ræðustól Alþingis, en ég er farinn að fá þá tilfinningu að það sé eitthvað þarna á bak við sem manni hugnast ekki alveg.

En nú er tíminn náttúrlega búinn, þannig að mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann hafi fengið þetta á tilfinninguna einhvern tímann? Eins vil ég biðja þingmanninn að útskýra fyrir mér hversu mikilvæg þessi grein er hjá fyrrverandi forsætisráðherra (Forseti hringir.) og formanni Sjálfstæðisflokksins, Þorsteini Pálssyni.