149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér hefur eiginlega fundist það enn þá merkilegra við afstöðu Vinstri grænna hversu mikla áherslu sá flokkur leggur skyndilega orðið á það að orkan sem kemur, auðlindir landsins, séu nýttar í markaðslegum tilgangi, að orkan sé orðin söluvara eins og hver önnur vara sem flæðir á milli landa. Það er alveg ljóst að sá flokkur hefur skipt algjörlega um kúrs í því.

Reyndar er kannski jafn mikil alvara í þessu atriði hjá flokknum og að við hættum að vera þátttakendur í NATO-samstarfinu. Það er í rauninni orðinn brandari. Vinstri grænir fara í hverja ríkisstjórnina á fætur annarri og gefa það alltaf eftir. Maður fer að velta fyrir sér hvort að það sé eins með Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að Evrópusambandinu. Það er orðinn einhver brandari í Sjálfstæðisflokknum að vera andsnúinn inngöngu í Evrópusambandið, líkt og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins bendir á, að flokkurinn kann núna að vera að liðka fyrir því að við gerumst aðilar að þessu óhappabandalagi þarna.