149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Við þyrftum að halda áfram þeirri umræðu sem hér hefur verið undanfarandi um það hvað það er sem veldur því að þrír stjórnmálaflokkar, þrír þingflokkar, skipta algerlega um kúrs í miðri á. Ég hafði orð um það áðan þegar ég fór í gegnum umsögn fyrrverandi hv. þingmanns og hæstv. ráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar, þar sem voru varnaðarorð gegn þessu máli, að ég tryði því ekki að þingflokkarnir allir, sérstaklega þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, hinir eru hugsanlega í stöðu minni, létu svona varnaðarorð sem vind um eyrun þjóta. Ég vildi ekki trúa því vegna þess að þetta eru ekki einu varnaðarorðin sem fram hafa komið. Það komu náttúrlega strax fram varnaðarorð í greinargerð frá tveimur ágætum lögmönnum sem hafa oft verið nefndir á nafn hér, Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst og Stefáni Má Stefánssyni, og menn fóru strax í að túlka afstöðu þeirra og reyndar fá þá til að skerpa hana, þannig að hún félli hugsanlega betur að því markmiði sem ráðuneytið hafði hvað málið varðaði.

En allt fram á þennan dag eru að koma fram álit, greinargerðir, upplýsingar, sem hníga að nákvæmlega sama marki. Ég sagði áðan í andsvari, og því laust bara niður í kollinn á mér, að ef allt hefði farið „samkvæmt áætlun“ ríkisstjórnarflokkanna væri þetta mál nú þegar samþykkt og við teknir til við eitthvað allt annað. Þá hefðu engu máli skipt upplýsingar um sæstreng sem komu fram í fyrradag, upplýsingar Arnars Þórs Jónssonar sem komu fram í gærmorgun, upplýsingar um hvað fyrirvararnir eru glataðir fyrir utan það að þeir eru týndir, sem hefur komið fram í vikunni. Allt þetta hefði legið hjá garði óbætt og við hefðum staðið frammi fyrir gerðum hlut, þ.e. við hefðum staðið frammi fyrir því að orkupakki þrjú væri þegar samþykktur sem þingsályktun og málinu væri að þeim parti lokið.

Horfum á tímalínuna frá því að þessi umræða hófst fyrir að verða tveimur vikum, þótt hún hafi náttúrlega ekki tafið þingið um tvær vikur því að við höfum unnið töluverða yfirvinnu við þingmenn sem höfum verið að malda í móinn. Á þeim tíma sem liðinn er inn í umræðuna hafa okkur borist og birst upplýsingar sem við höfðum ekki áður. Hefði það breytt einhverju? Ég veit það ekki. Ég held að það hefði breytt töluverðu máli ef þetta væri orðið að þingsályktun Alþingis og nú hefðu komið fram, að því gerðu, þær upplýsingar sem komið hafa fram síðustu daga.

Ég held svei mér þá, herra forseti, í ljósi þess sem fram kom t.d. í kvöldfréttum sjónvarps í gærkvöldi um afstöðu almennings, sem vildi fá frekari kynningu á málinu, sem vildi vita meira um málin, alveg eins og við viljum vita meira um málið, að almenningur á Íslandi hefði örugglega orðið tortrygginn ef hann hefði fengið upplýsingar um sæstrenginn sem við fengum inn á borð í fyrradag og ef hann hefði fengið t.d. upplýsingarnar sem fram komu hjá Arnari Þór Jónssyni í gærmorgun og það hefði verið búið að samþykkja þingsályktunina.

Allt þetta ber að sama brunni. Það verður að kynna málið betur. Þjóðin á inni hjá okkur að við gerum það. Það verður að fresta málinu. Undan því verður ekki vikist hvað sem menn kunna að tauta og raula. Ég hvet enn til þess að ríkisstjórnarflokkarnir og fylgihnettirnir sjái að sér (Forseti hringir.) og dragi þetta mál til hliðar og kanni það betur.