149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að halda því til haga. Það sem hv. þingmaður nefnir í andsvari sínu er eitt í viðbót sem við hefðum ekki vitað fyrr en að samþykktri tillögunni ef ekki hefði komið til þetta andóf, þessi umræða sem er dýpri og dýpri með hverjum deginum. Þá hefðum við verið með samþykkta þingsályktunartillögu. Við hefðum fengið fréttir af fjórða orkupakkanum að henni samþykktri. Við hefðum fengið álit Arnars Þórs Jónssonar að henni samþykktri. Við hefðum fengið allar þessar upplýsingar sem tínst hafa hingað inn á þeim dögum sem liðnir eru, nema þingsályktunin hefði verið samþykkt og klár, frágengin.

Nú spyr maður: Er það vegna þess arna sem lá svona á? Vildu menn vera búnir að koma þingsályktunartillögunni í skjól, samþykktri, áður en að fregnir bærust af fjórða orkupakkanum, áður en að fregnir bærust af því sem við höfum verið að tína saman, að fyrirvararnir væru ónýtir, allt það sem tínst hefur til undanfarið? Er það það sem veldur? En það kemur enginn að svara okkur.

Og ég hrósa hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að sitja hér með okkur en hann situr þögull. Vonandi færir hann félögum sínum fregnir af því hvað við höfum rætt núna og vonandi færir hann formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem vill svara öllum spurningum eða segist hafa gert það, fregnir af því að þarna séu nokkrar spurningar sem er ósvarað. Það væri mjög þakkarvert ef hún kæmi á vettvang og svaraði þeim og uppfyllti þá (Forseti hringir.) ætlan sína að svara öllum spurningum.