149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er að verða svolítið áhugavert. Þetta er eiginlega eins og kosninganótt. Hæstv. forseti kemur reglulega með nýjustu tölur yfir ræðufjölda og slíkt. Það þarf ekki annað en að það dúkki upp sá stjórnmálarýnir sem er reglulega í Ríkisútvarpinu á kosninganótt og fari að greina þetta, hann var reyndar eitthvað að reyna það um daginn, sá ágæti maður. En auðvitað snýst þetta mál ekki um fjölda ræðna eða ræðutíma, þó svo að fjölmiðlar og ekki síst Ríkisútvarpið virðist hafa mestan áhuga á því, heldur snýst þetta vitanlega um spurningarnar og innihaldið sem við erum að reyna að kryfja og fá svör við. En látum það liggja á milli hluta.

Mig langar að spyrja fleiri spurninga sem ég tel nauðsynlegt að velta fyrir sér áður en málið er klárað og hið augljósasta er kannski: Hver eru tengslin milli orkupakka þrjú og fjögur, þ.e. ef við horfum á heildarmyndina á breytingunum? Það er ljóst og við sjáum að yfirlýst er að ákveðnir hlutir munu breytast en við vitum ekki hvernig. Við höfum ekki fengið neina rannsókn á því.

Eins höfum við ekki fengið að sjá hvort heildarstjórnskipulegi vafinn, ef má orða það svo, það er svolítið sérkennilegt að orða þetta þannig, ég geri mér grein fyrir því, er á þann hátt að sérfræðingar sem fjallað hafa um málið myndu hugsanlega segja eitthvað annað í umsögnum sínum um orkupakka þrjú ef þeir vissu hvað væri í þeim fjórða. Myndu þeir mögulega segja: Við skulum stoppa núna. Við verðum að afgreiða stjórnskipulega þáttinn? Hann er mögulega of mikill eða skiptir ekki máli, of lítill eða hvernig það er allt saman. En lengra verður ekki gengið vegna þess að við vitum hvað þetta þýðir þegar hinn fjórði mun dynja á okkur.