149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég hef verið að fara yfir spurningar sem mér finnst skipta máli varðandi það að við okkur blasir hinn svokallaði fjórði orkupakki og möguleg áhrif sem hann kann að hafa til framtíðar. Það á eðlilega að tengja orkupakka þrjú við orkupakka fjögur.

Ég hef verið að velta upp spurningum sem ég tel nauðsynlegt að leita svara við. Ein spurningin sem ég velti fyrir mér er það hver afgreiðslan verður, af því að nú virðast Norðmenn komnir eitthvað á undan okkur með upplýsingar og kynningu á fjórða orkupakkanum, hver verður afgreiðslan endanlega á þeim bænum? Er líklegt að það verði aukin andstaða þar og eru kannski líkur á að það verði svipað ástand og er á Íslandi, að menn verði almennt, þjóðin og hluti þingmanna í það minnsta, andvígir þeirri innleiðingu? Þetta er ástæða til að fara sér hægt, ekki síst af því að við höfum það forskot, ef má kalla það forskot, að vera ekki búin að ganga alla leið með orkupakka þrjú.

Síðan er annað sem ég velti fyrir mér: Er einhver þróun í fjórða orkupakkanum sem færir þeim einkaaðilum, sem vilja byggja orkuver og leggja rafstreng upp á sitt einsdæmi og á eigin kostnað frá Íslandi og hugsanlega til Skotlands og þaðan til Evrópu eða Noregs eða eitthvert annað, betri tæki eða vopn í hendurnar fyrir málsókn gegn Íslandi ef ríkið, Orkustofnun eða einhverjar aðrar stofnanir, reyna að koma í veg fyrir að strengur verði lagður? Við getum reynt að átta okkur á því ef menn gefa sér tíma til að fara í fjórða orkupakkann. Þá verða þingmenn vitanlega að komast út úr boxahugsuninni, þ.e. að hugsa þetta þannig að í hverju boxi sé einn orkupakki, því að allar þessar tilskipanir og allt þetta reglugerðaflóð sem kemur frá Evrópusambandinu í kringum orkumálin miða að því að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins. Hún er í raun ekki hólfuð niður heldur er þetta heildarstefna þó svo að hún sé innleidd í pörtum, eins og margoft hefur verið bent á, og fólk matað á henni með teskeið, eins og pylsa sem er skömmtuð ofan í mann. En stefnan er það sem verið er að innleiða.

Mig langar að rifja upp varnaðarorð t.d. lögmannsins Eyjólfs Ármannssonar sem varaði sérstaklega við því eða benti á að varasamt væri, leyfi ég mér að segja, að innleiða orkustefnu ríkjabandalagsins, Evrópusambandsins, í íslenska löggjöf eða fyrir Íslendinga á meðan við hefðum sjálf ekki okkar eigin orkustefnu til að taka mið af. Verður það þannig þegar langtímaorkustefna fyrir Ísland lítur loksins dagsins ljós að hún verði aðlöguð að Evrópustefnunni? Mun hún þurfa að draga upp mynd sem er þóknanleg þeim markmiðum sem Evrópusambandið hefur sett sér og þá með tilvísunum í að við höfum innleitt þessar og hinar gerðir sem verður að taka mið af? Mér finnst það óeðlilegt. Þetta er röng forgangsröðun. Það að við skulum ekki hafa orkustefnu til lengri tíma ætti að duga eitt og sér til þess að vilja skoðað málið lengur og gaumgæfa það.

Ég er enn þá þeirrar skoðunar að vísa ætti málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, í það minnsta væri það til mikilla bóta, ekki síst málinu, ef menn gæfu sér sumarið til að svara þeim fjölmörgu spurningum sem hafa kviknað um (Forseti hringir.) þetta stóra og mikla mál.