149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:35]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Þau tíðkast hin breiðu spjótin, varð Atla Ásmundarsyni að orði þegar Þorbjörn öxnamegin rak hann í gegn, eða svo segir frá í Grettis sögu. Og mér verður svipað við við þessar fréttir, því að það er alltaf eitthvað nýtt að frétta eins og hv. þingmaður kom inn á, það er víst komin einhver færsla inn á ráðuneytið, þar sem varið er ærnu plássi í að útskýra þann fyrirvara sem við höfum verið að leita að og það er ný frétt, heyrist mér. Ég hef ekki lesið þetta sjálfur en mér heyrist að hv. þm. Bergþór Ólason, sem ég þakka fyrir ræðuna, komi þar með nýjar upplýsingar inn í málið, nýjar upplýsingar beint úr ráðuneytinu, brennheitar og nýjar.

Ef ég heyrði rétt það sem hv. þingmaður var að tala um eru áform um hinn svokallaða sameiginlega skilning sem oft hefur verið rætt um að menn hafi verið að gefa yfirlýsingar um, að það væri sameiginlegur skilningur að Ísland væri eyja, það væri sameiginlegur skilningur á því að hingað lægi ekki sæstrengur. Menn hafa verið að árétta þetta úti í Evrópu, bæði hjá EFTA-ríkjunum og Evrópuríkjunum og orkumálastjóranum og fleirum. Nú er komin þessi frétt og ég ætlaði að spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt skilið hjá mér að fyrirhugað sé að sú sérstaða Íslands verði áréttuð með bókun fyrir sameiginlegu EES-nefndinni, hvort það sé rétt skilið að þetta sé hinn nýi fyrirvari sem hér er að koma í ljós?