149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni andsvarið. Ég held að óhætt sé að segja að öll hófsemdar- og skynsemisrök hnígi að því að gefa þinginu og nefndum þess rýmri tíma til að fara yfir málið. Það verður að líkindum ekki gert nema með tveimur mismunandi útfærslum, annars vegar að taka málið af dagskrá núna, hleypa öðrum málum að og vinna það í nokkra daga. Nægur er tíminn í því samhengi.

Eftir því sem ég best veit er uppfærð fjármálastefna ekki einu sinni farin til umsagnar hjá Fjármálaráði. Ef ég þekki regluverkið rétt hefur Fjármálaráð heila viku til að skila umsögn þó að vel megi vera að þeir hafi verið upplýstir jafnt og þétt og þurfi þar með skemmri tíma. En það er tími. Það er punkturinn hjá mér. Það er tími til að vinna þetta áfram með því að hleypa öðrum málum að.

Það sem skynsamlegast væri, að mínu mati, er að taka málið af dagskrá með það fyrir augum að vinna það í gegnum sumarið og leita bestu leiða, svara þeim spurningum sem upp hafa komið og reyna að girða fyrir þær áhyggjur sem mestar eru, afgreiða málið svo í haust. Ég er þess fullviss að hægt verði að ramma málið inn með þeim hætti að allir treysti sér til að fara í þá vinnu í gegnum sumarið og hafa málið tilbúið í haust þegar þing kemur saman aftur. Ég held að það væri skynsamlegast í þessum efnum. Annað lyktar meira af þrjósku en öðru.