149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta eru réttmætar áhyggjur hjá hv. þingmanni þegar kemur að húshitun með raforku, sem er þó nokkuð um á landsbyggðinni. Í þeim efnum er orkupakki þrjú áhyggjuefni vegna þess að þar er að finna tilskipun sem mætti túlka á þann veg að niðurgreiðslur á rafmagni væru almennt óheimilar. Ég ræddi þetta við utanríkisráðherra þegar hann kom hér í vikunni. Hann gat ekki svarað því á annan veg en að við myndum halda áfram að niðurgreiða rafmagn. En hvað ef gerðar verða athugasemdir við það, það sé brot á samkeppnissjónarmiðum sem eru svo rík innan orkutilskipana Evrópusambandsins, að ekki megi mismuna með neinum hætti? Þessi niðurgreiðsla til húshitunar á Íslandi er nokkuð sérstök og það lýsir því bara að okkar markaður er allt annar og við eigum ekkert sameiginlegt með þessum markaði í Evrópu.

Ég minni á að við orkupakka eitt voru allir sérsamningar sem vörðuðu m.a. húshitun ólögmætir samkvæmt tilskipuninni og þess vegna var þeim hætt. Það hafði í för með sér tugprósenta hækkun til ákveðinna heimila í landinu. Fyrir þessu hafa ekki verið færð nein haldbær rök hvers (Forseti hringir.) vegna. En þetta er eitt af þessu regluverki sem við höfum verið að innleiða og án (Forseti hringir.) fullnægjandi umræðu.