149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Áhrifin af því ef eitthvert af þessum fyrirtækjum myndi hætta rekstri gæti verið alvarleg. Það er rétt að minna á að Landsvirkjun gerði raforkusamning við ÍSAL í Straumsvík árið 2010. Nánast frá þeim tíma hefur álverið í Straumsvík verið rekið með tapi og munaði litlu, eins og ég sagði áðan, að fyrirtækinu væri lokað árið 2015. Þannig að hættan á að það gæti gerst er raunveruleg, herra forseti.

Afleiðingarnar? Jú, hundruð starfa myndu tapast, ef ekki þúsundir starfa, afleidd störf, fjölmörg. Ýmsar vélsmiðjur, rafverktakar, trésmiður og aðrar iðngreinar vinna ýmis afleidd störf fyrir þessi fyrirtæki og þessi störf mundu öll tapast. Áhrifin fyrir þjóðarbúið yrðu náttúrlega veruleg. Gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins hefur áhrif á hagvöxt og mun hafa áhrif á gengi, svo dæmi sé tekið. Við sjáum bara hvaða áhrif fall WOW-flugfélagsins hafði á þjóðarhag, þjóðhagsspána, fjármálaáætlun, fjármálastefnuna sem við erum að taka upp núna. Við myndum horfa á það nákvæmlega sama (Forseti hringir.) og ég held mun verri niðurstöðu en við erum að glíma við núna vegna brottfalls WOW af flugmarkaði.