149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:18]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Hún fjallaði dálítið um fyrirvara og fyrirvarar eru sagðir eiga við ef sæstrengur verður lagður. Mig langar að velta upp þeirri staðreynd að fari orkupakki þrjú í gegnum þingið eins og ætlunin er núna erum við með því orðin hluti af hinum evrópska orkumarkaði og þar með verður það hinn evrópski orkumarkaður sem ákveður að leggja sæstreng til Íslands ef það hentar þeim markaði. Við höfum komist að því að lög Evrópusambandsins í þeim efnum eru rétthærri okkar íslensku lögum þannig að við munum ekkert hafa um það að segja, enda bendir umfjöllun Sunday Times til þess að þar séu fjárfestar tilbúnir með fjármagn með stuðningi Evrópusambandsins, þar sem það verkefni verður þá styrkhæft, tilbúnir til að ráðast í það að leggja þennan sæstreng.

Mér finnst þetta nokkuð góð hugsun hjá hv. þingmanni að ræða fyrirvarana og langar að fá hann til að dýpka það enn frekar þar sem óljóst virðist vera hvort fyrirvararnir eigi við um orkupakka þrjú eða hvort þeir eigi aðeins við um sæstrenginn og hvort við munum hafa eitthvað um það að segja. Það er ekki nóg að vona. Ég held að við þurfum að líta á staðreyndir.