149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:31]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Mig langar aðeins að nefna það sem fram kom í andsvari hjá hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur áðan við hv. þingmann, ég heyrði ekki hvort hann svaraði því. Það er í sambandi við Brexit og það sem er í gangi þar á bæ, um útgöngu Breta úr ESB. Getur þingmaðurinn varpað ljósi á eða frætt mig um eða velt vöngum yfir því hverju sú útganga Breta, eða það sem er í gangi núna, muni breyta eða hvaða afleiðingar það muni hafa í sambandi við það mál sem við erum að fást við núna, bæði varðandi orkupakkamálið og hugsanlegan sæstreng sem gæti tengst þar við land og til meginlandsins?

Sér þingmaðurinn inn í sína spádómskúlu hvernig það gæti farið í ljósi þess brölts sem er í sambandi við þetta Brexit-mál og þann fasa sem Bretar eru í, sem maður á eftir að sjá hvernig fer? En orð eru til alls fyrst og væri gaman að heyra vangaveltur þingmannsins í þá átt.