149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:58]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Það sem ég vil gera að umræðuefni mínu í þessari ræðu er sviðsmyndagreining eða eitthvað í þá áttina. Það sem helst hefur vantað í umræðunni undanfarið — og þá verð ég að undanskilja málflutning Miðflokksins — er að sjálfsögðu að birtar verði þær sviðsmyndir sem innleiðing þriðja orkupakkans gæti haft í för með sér. Þær eru margar en auðvitað veltur mikið á því hvort hagsmunaaðilar láti reyna á rétt sinn rétt verði tilskipunin innleidd og beiti sér fyrir því að fá lagðan hingað sæstreng. Lagalegi fyrirvarinn, sem sagt er að sé til staðar en finnst hvergi, mun að öllum líkindum ekki halda. Hver er þá staðan? Ein sviðsmyndin gæti verið þessi: Fyrirtækið Atlantic SuperConnection, sem lýst hefur áformum sínum um að framleiða sæstreng á Norðaustur-Englandi og leggja hann til Íslands, bíður áreiðanlega eftir því að Evrópurétturinn taki yfir málefni millilandastrengjarafmagns við Ísland. Sýni íslensk stjórnvöld mótspyrnu gagnvart þessu verkefni eftir að hafa beitt sér fyrir innleiðingu orkupakka þrjú má vissulega búast við kærumálum fyrir EFTA-dómstólnum, með öðrum orðum verða höfðuð brotamál vegna EES-samningsins og kröfugerð fyrir íslenskum dómstólum um skaðabætur á hendur íslenska ríkinu fyrir óþarfatafir á að hefja ábatasöm viðskipti.

Alþingi er augljóslega að skapa mikla réttaróvissu ef það afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af orkupakka þrjú. Þess ber að geta að Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson eru búnir að vara við þessari hættu í álitsgerð sinni frá 19. mars 2019.

Gerist eitthvað þessu líkt eða nákvæmlega þetta er búið að opna pandóruboxið. Við munum sjá hækkandi raforkuverð til fyrirtækja og heimila. Innri markaður fyrir raforku gerir nefnilega ráð fyrir því að eitt markaðsverð gildi. Það er nú bara þannig í þessu máli. Skiljanlegar áhyggjur garðyrkjubænda um að raforkuverð verðleggi þá út af markaðnum munu rætast ef af verður. Sérstaða okkar í ýmiss konar framleiðslu þar sem við höfum notið þess að geta boðið upp á ódýra endurnýjanlega orku mun leiða til þess að framleiðslan gæti flust úr landi. Hvað skyldi verða um öll gagnaverin sem nú er verið að byggja víða um land ef af þessu verður?

Þessi sviðsmynd er vissulega ljót, ég viðurkenni það, en hún er engu að síður raunveruleg, fari allt á versta veg. Slíkt megum við aldrei láta henda íslenska þjóð. Við verðum alltaf að muna að við erum örþjóð innan EES-svæðisins, en þar búa 400 milljónir manna þar sem margir risafjárfestar renna hýru auga til raforkuauðlinda okkar.

Það er því engin önnur skynsamleg leið en að hafna þriðja orkupakkanum, virkja 102. gr. samningsins, taka málið upp í sameiginlegu EES-nefndinni og fá undanþágur sem halda. Það er ekki popúlismi eða einangrunarhyggja eða nokkuð þvílíkt. Það er ábyrgt, það er skynsamlegt og það sem okkur þingmönnum ber að gera. Það höfum við sem höfum staðið þessar vaktir verið að gera, að reyna koma ríkisstjórninni í skilning um að ekkert liggi á, enda hefur hæstv. ráðherra iðnaðar sagt það í viðtali að það liggi ekki það mikið á að ekki megi fresta málinu til hausts.