149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Hann vék að ýmsu í ræðunni, hann ítrekaði og áréttaði megintillögu okkar hér sem er að þessu máli verði frestað og að hin fjölmörgu atriði sem við höfum bent á að þarfnist nánari skoðunar verði könnuð og rannsökuð nánar. Hv. þingmaður gat um það samtal sem átti sér stað í þessum sal sl. föstudag þegar hæstv. utanríkisráðherra mætti hingað.

Það er ástæða til að vitna til orða hæstv. ráðherra og ég vil leita eftir áliti hv. þingmanns á þeim. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í ræðu hæstv. ráðherra. Hann sagði:

„Af hverju frestum við þessu máli ekki?“

Við bíðum spennt eftir að fá svar ráðherra við þeirri spurningu. Svarið er svohljóðandi:

„Ástæðan fyrir því að við frestum þessu máli ekki er sú að það er engin ástæða til þess. Hér segja menn réttilega: Heyrðu, það er bara fullt af fólki sem hefur miklar áhyggjur af þessu máli. Það er rétt, það er bara hárrétt, en kosturinn við það að klára þetta mál er sá að þá mun það fólk sjá að þeir sem fóru hér mikinn og með mikinn hræðsluáróður gerðu það innstæðulaust.“

Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann og hæstv. forseta sömuleiðis: Er boðlegt að halda því fram að slíkt stórmál þurfi að afgreiða til að varpa einhverju ljósi á málflutning þeirra sem hafa leyft sér að vera með efasemdir í málinu?