149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu svari kýs hæstv. ráðherra að kalla málflutning þeirra sem hafa leyft sér að hafa uppi efasemdir, hafa leyft sér að rýna þetta mál, hafa leyft sér að fjalla um það með gagnrýnum huga, hafa leyft sér að kalla eftir skýringum og hafa leyft sér að sinna þinglegum skyldum sínum, hræðsluáróður. Með leyfi, frú forseti, geigar þetta orð, það er marklaust vegna þess að hæstv. ráðherra hvorki reyndi né getur fundið þeim stað.

Hæstv. ráðherra leitaðist í sömu ræðu við að útskýra þann fyrirvara sem hér hefur verið gerð leit að. Hann segir í ræðunni að hans sé að leita í „nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, með síðari breytingum, frá meiri hluta atvinnuveganefndar“.

Þegar að er gáð reynist þetta vera uppkast að innleiðingarreglugerð iðnaðarráðherra með innskotsgrein þar sem er rakinn einhver fyrirvari, en getur einhver trúað því að lagalegan fyrirvara sé að finna í reglugerð ráðherra? Sá sem hefur haft forystu um leitina að fyrirvaranum, löglærður maður með reynslu af lögreglustörfum og beitir tækni og starfsaðferðum lögreglu í leitarstarfi sínu, fæst ekki til að trúa því að lagalegan fyrirvara sé að finna í reglugerð útgefinni af ráðherra. (Forseti hringir.) Hvert er álit hv. þingmanns á þeim vinnubrögðum?