149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:27]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, ég tel fullvíst að hingað muni koma útlendir aðilar sem vilja notfæra sér, ég vil nota það orð, auðlindir landsins. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga og ef við ætlum að reyna að standa í vegi fyrir því verður höfðað gegn okkur einhvers konar samningsbrotamál, alveg augljóslega. Enn og aftur erum við að ítreka hér að við viljum að orkupakki þrjú verði lagður fyrir sameiginlegu EES-nefndina til að tryggja lagalega fyrirvara á því sem einkennir sérstöðu Íslands. Þá er ég ekki bara að meina að það sé skrifað sem lagalegur fyrirvari að landið sé eyja, það hlýtur að vera eitthvað meira undir en það.

Ég vil líka minna á fésbókarfærslu Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómslögmanns sem sagði í gærkvöldi að það væri algjörlega ljóst að ef við hugsum ekki okkar gang og innleiðum hlutina með réttum hætti verði farið í mál við Ísland. Það ætti að vera orðið ljóst að slíkt mál er í gangi í Noregi sem miðar að því að þar hafa fyrirvarar sem settir voru ekki verið virtir og það er uppi sjónarmið um að þeir hafi ekki innleitt orkupakka þrjú löglega. Við hljótum að ætla að læra af þeirri reynslu og fara þá leið að gera hlutina rétt.