149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

störf þingsins.

[09:51]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Líkt og fram hefur komið er búið að leggja fram endurskoðaða fjármálastefnu í ljósi gjörbreyttra aðstæðna. Mér hefur oft og tíðum þótt umræðan um fjármálastefnu vera dálítið ankannaleg og ekki síður um fjármálaáætlun sem lögð var hér fram fyrr á þessu ári. Það er eins og sumir telji að í fjármálaáætlun sem lögð sé fram hafi t.d. átt að gera ráð fyrir að einkafyrirtæki úti í bæ færi á hausinn, sem hefði sennilega verið í fyrsta skipti sem það hefði verið gert við fyrirtæki sem var að berjast fyrir lífi sínu og hefði jafnvel getað haft alvarlegar afleiðingar þar. En látum það nú vera.

Fjármálastefnan var samþykkt árið 2018 og fór eðlilega eftir þjóðhagsspá Hagstofunnar frá nóvember 2017 þar sem reiknað var með að uppsafnaður hagvöxtur yrði um 14% út spátímabilið. Síðan hafa forsendur gerbreyst. Verður farið yfir það í hverju þær forsendubreytingar felast.

Samkvæmt maíspá Hagstofunnar er reiknað með að hagkerfið dragist saman um 0,2% árið 2019 og við séum að horfa á þá gjörbreyttu stöðu að í fyrsta skipti frá árinu 1992 verði hagvöxtur neikvæður, að hruni undanskildu að sjálfsögðu.

Virðulegi forseti. Áætlanir eru alltaf háðar óvissu. Það felst í orðinu áætlanir. Þær byggjast á greiningum, t.d. greiningum Hagstofunnar. Það er ekki ábyrgt eða eðlilegt að byggja þær á nokkru öðru en því. Stjórnvöld sem ekki breyta áætlunum til samræmis við raunveruleikann eru einfaldlega ekki ábyrg stjórnvöld.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er ábyrgt stjórnvald og hefur því lagt fram nýja stefnu byggða á raunveruleikanum.