149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

störf þingsins.

[09:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Loftslagsbreytingar eru helsta ógn við lífið á jörðinni eins og við þekkjum það. Þetta er ógn sem er ekki fjarlæg, hún er að gerast í dag. Börnin okkar sjá þetta og eru búin að fá nóg. Nú er komið að okkur að sjá sömuleiðis alvarleikann í þeim breytingum sem eiga sér stað.

Þessi ógn krefst fjölmargra aðgerða, viðhorfsbreytingar, breyttrar neysluhegðunar, aukins fjármagn frá hinu opinbera og einkafyrirtækjum. Við þurfum að takmarka plast í miklu meira mæli. Við þurfum að banna pálmaolíu, svo fátt eitt sé nefnt.

Í hagfræðinni tölum við talsvert um fjárhagslega hvata og ég held að við þurfum að nota fjárhagslega hvata í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Verð er einn helsti áhrifavaldurinn á hegðun fyrirtækja og fólks og skattar eru því ein leið til að ná þessu markmiði fram.

Mengunarskattar eru í sjálfu sér einu hagkvæmu skattarnir. Í dag er of ódýrt að menga. Mengun er of ódýr. Ég tók eftir í gær auglýsingu frá einu bensínfyrirtæki sem fullyrti að það þyrfti einungis að láta 7 kr. af hverjum lítra renna í endurheimt votlendis til að vinna upp kolefnissporið. Ég velti því fyrir mér hvort við ættum ekki einfaldlega að leggja til viðbótargjald við kolefnisgjaldið, sérstakt loftslagsgjald eða náttúrugjald, upp á 7 kr. til að mæta þessum vanda. Sömuleiðis þyrfti einungis að hækka flugmiðann til London og Kaupmannahafnar um 2.000 kr. til að endurheimta kolefnissporið sem þar hlýst af.

Ég velti fyrir mér sömuleiðis, herra forseti, að stærðargráða þessarar ógnar er af slíku kalíberi að til samanburðar má taka þegar mannkynið reis upp gegn sameiginlegri ógn fyrir 80 árum og (Forseti hringir.) upp spratt seinni heimsstyrjöldin. Í dag þurfa þjóðir heimsins sömuleiðis að rísa upp og bregðast við þeirri ógn (Forseti hringir.) sem blasir við, sama hvað það kostar, því aðgerðaleysið kostar enn meira.