149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar allrar um frumvarp til nýrra umferðarlaga, heildarlöggjafar. Tel ég þetta mjög brýnt mál sem margir hafa beðið lengi eftir og hefur það oft komið fyrir þingið áður.

Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný umferðarlög sem leysi af hólmi lög nr. 50/1987. Umhverfis- og samgöngunefnd fagnar þessu frumvarpi og telur það framfaraskref enda komin þörf á að færa ákvæði umferðarlaga til nútímalegra horfs með hliðsjón af reynslu síðustu áratuga og þróun í umferðar- og tæknimálum.

Nefndin telur nýtt markmiðsákvæði er mjög til bóta, en þar er kveðið á um að markmið laganna sé að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis sé gætt milli vegfarenda óháð samgöngumáta og tillit tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar. Nefndin tekur heils hugar undir efni ákvæðisins og leggur áherslu á að umferðaröryggi skuli ávallt haft að leiðarljósi við alla framkvæmd og túlkun laganna.

Það var með það í huga sem við höfum unnið þetta mál síðan síðastliðið haust. Við höfum fengið til okkar fjölmarga gesti og farið vel og vandlega yfir mörg mál, enda málið stórt og umfangsmikið. Það kemur inn á marga þætti og því er ekki hægt að fara yfir þá alla hér. Ég ætla því að fara yfir helstu áherslur nefndarinnar og helstu breytingar sem gerðar voru og ástæður þeirra. Að öðru leyti mun ég vísa til nefndarálitsins og svo frumvarpsins og greinargerðarinnar með því.

Breyta þurfti nokkrum skilgreiningum til að auka skýrleika laganna og gera þau læsilegri. T.d. er orðið „veghaldari“ komið inn í umferðarlögin þar sem þeirrar skilgreiningar er getið og er vísað þar til vegalaga. Það eru fleiri slíkar skilgreiningar eins og „akstursíþróttir“ og fleira sem sett var til skýringar, ásamt því að breyta skilgreiningunni á snjalltæki svo fólk væri ekki í neinum vafa um hvað fælist í orðinu snjalltæki og að ekki væru gerðir einhverjir útúrsnúningar á því. Það eru slíkar skýringar sem við gerum hér.

Við gerum líka smávægilegar breytingar varðandi umferð á göngugötum, en vissar undanþágur er að finna í lögunum til þess að aka á göngugötu og fengum við ábendingar um að notkun hreyfihamlaða á eigin bíl hafi ekki verið í þeirri upptalningu. Við teljum ekki rétt að undanskilja þá frá því að geta sótt um þessa undanþágu og gerum breytingu á því.

Varðandi ákvæðið um forgangsakstur er ráðherra veitt reglugerðarheimild til að útfæra það nánar varðandi námskeið og annað slíkt. Það þótti ekki nógu skýrt hvað varðar vilja löggjafans og heimild ráðherrans til þess að gera að skyldu slíkt námskeið og réttindi eða útgáfu einhvers konar skírteinis, þannig að þeir sem aka forgangsakstur þurfi að undirgangast slíkt námskeið áður en þeir fara að sinna slíkum akstri, enda hafa slík námskeið sýnt með óyggjandi hætti að slíkt eykur umferðaröryggi til muna, dregur úr umferðarslysum við neyðarakstur, dregur úr tjóni og öðru slíku og eykur árangurinn af þessu, umferðin gengur betur almennt. Þannig að við töldum mikilvægt að bæta því við að það væri alveg örugglega hægt að gera kröfu um að skylda fólk til að fara á svona námskeið fyrst. Lögreglan hefur staðið sig mjög vel í því að mennta alla sína forgangsakstursökumenn í þessu efni. Svipað hefur gerst hjá slökkviliðunum og að einhverju leyti hjá björgunarsveitunum. En betur má ef duga skal. Það þarf að halda áfram þarna.

Varðandi hjólreiðakeppnirnar þá gerðum við smábreytingu á þannig að ekki þyrfti alltaf leyfi. Þau voru orðin svolítið ítarleg, leyfin, þannig að þetta er meira skilgreiningaratriði. Það var þannig að það þurfti alltaf leyfi, hvort sem keppnin var á lokuðum svæðum eða ekki. Það var ekki markmiðið upphaflega, þannig að við færum það svo það nái markmiði sínu.

Svo kemur eitt ákvæði sem var mjög mikið rætt og skiptir mjög miklu máli, það er varðandi ölvunarakstur, sem er 49. gr. og tengist þá inn í 102. gr. Ölvunarakstur er ein algengasta orsök umferðarslysa í dag og er eitt af því mikilvægasta að koma böndum á til að auka umferðaröryggi. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að þar takist vel til. Fengum við fjölda gesta og ábendingar varðandi þetta og fórum vel yfir málið.

Upphaflega er lagt til í frumvarpinu að til þess að senda skýr skilaboð, að „eftir einn ei aki neinn“, var lagt til að lækka leyfileg mörk áfengis í blóði úr 0,5‰ í 0,2‰. Það átti einungis að leiða af sér sekt og hafa ítrekunaráhrif ef það gerðist oftar en einu sinni. Þannig var lagt upp með það. Fram komu ábendingar m.a. frá lögreglunni um að um helmingur allra brota sem tengdist ölvunarakstri hjá lögreglu væri undir þessum mörkum, undir 0,5‰. Ef lögreglan þarf að fara að sinna því að fara með fólk í blóðprufur eða öndunarsýnaprufur, sem krefst þess að fara af vettvangi og stofna til mála í málaskrá lögreglu og fara svo í innheimtuferli og annað slíkt á grundvelli þessa, mun það auka gríðarlega álag á hana. Það álag mun ekki gera neitt annað en að draga úr styrk lögreglunnar til að sinna öðrum frumkvæðismálum, eins og að stöðva þá sem aka undir áhrifum áfengis, sem eru þá hærri mörk, yfir 0,5‰.

Við leggjum hér til að fara ákveðna millileið þannig að nú verður fært í lög að óheimilt sé aka undir áhrifum áfengis frá mörkunum 0,2‰ eða meira, og þannig verða lögin. En við munum einungis færa núverandi verklag lögreglu inn í lögin, þ.e. að þeim sem mælast í öndunarprófi eða öðru prófi á vettvangi með 0,2‰–0,5‰, á því bili, verður gert að stöðva för sína, þeir fá ekki að halda akstrinum áfram og verður viðkomandi atvik skráð í málaskrá lögreglu. En vissulega mun verklag lögreglu halda áfram varðandi þá sem mælast með 0,4‰ eða á því bili, þeir verða færðir til frekari rannsóknar eins og verið hefur.

Með þessu viljum við senda þau skilaboð að akstur undir áhrifum áfengis verður ekki liðinn. Hann mun hafa þær afleiðingar að vera skráður í málaskrá lögreglu og viðkomandi fær ekki að halda för sinni áfram. Því mun þetta allt saman verða til í bókun lögreglu ef eitthvað kemur upp á hjá viðkomandi ökumanni og annað slíkt. Við teljum að við séum að stuðla að auknu umferðaröryggi með að fara þessa leið.

Þessu tengt er önnur grein sem heitir akstur undir áhrifum lyfja. Það hefur ágerst mjög mikið að fólk aki undir áhrifum ýmissa lyfja, bæði lyfseðilsskyldra og annarra lyfja, sljóvgandi lyfja og annarra. Það er sívaxandi vandamál sem nauðsynlegt er að bregðast við. Þess vegna leggur nefndin til breytingu á 50. gr. frumvarpsins þannig að akstur undir áhrifum lyfja falli undir þá grein, ekki einungis akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna, heldur einnig lyfja. Það mun líka falla þarna undir þannig að það mun auðvelda framkvæmdina hjá ákæruvaldinu og lögreglunni í því að fylgja þessu alvarlega máli eftir.

Svo er talað um öndunarpróf, öndunarsýni, blóðsýni og fleira. Farið er yfir það hvaða heilbrigðisstarfsmenn geti framkvæmt svokallað klínískt mat. Urðu töluverðar umræður um það og fór nefndin í töluverða rannsóknarvinnu í því efni. Við erum svolítið að hnykkja á því að til þess bær heilbrigðisstarfsmaður framkvæmi matið. Við tökum ekki afstöðu til þess í nefndinni nákvæmlega hvaða heilbrigðisstarfsmaður hafi heimild til að taka hvaða próf og sýni hverju sinni, heldur verður eðli hvers máls að ráða því hvaða sérhæfði heilbrigðisstarfsmaður er kallaður til hverju sinni svo það sé alveg á hreinu að ef fara þarf í svona sýnatöku, eða beita þarf valdi til að framkvæma slíka sýnatöku eða próf, þá er það lögreglan sem framkvæmir valdbeitinguna en heilbrigðisstarfsmaður gerir sýnatökunarprófið sjálft. Þannig að þær breytingar sem við gerum eru til að skýra þetta og hafa þetta alveg á hreinu.

Svo er komið aðeins inn á aksturs- og hvíldartíma ökumanna þungra ökutækja sem er oft til mikið til umræðu. Þar er verið að skýra breytingar til þess að auka skýrleikann í ákvæðunum sem falla að þessu efni. Sérstök lagaheimild er komin inn í lögin nú þegar og munu áfram verða vissar undanþáguheimildir útfærðar í reglugerð, en ein undanþáguheimildin var sérstaklega tekin inn í lögin. Okkur fannst það ekki til þess fallið að skýra málin þannig að menn þyrftu að átta sig á undanþáguheimildum á tveimur stöðum. Það gat haft áhrif á rétthæð undanþáguheimildanna og annað slíkt. Þó að það hafi verið augljós og skýr rök fyrir því að þetta var svona teljum við betra að hafa þetta allt á sama staðnum til skýrleika þannig að við fellum undanþáguheimildina út úr lögunum og höfum þetta alfriðaða reglugerðarheimild. Eins svo það sé skýrt um ítrekunaráhrifin og annað slíkt, viðurlögin; ef til sviptingar eða akstursbanns kemur þá nái það til þeirra ökuréttindaflokka sem brotið tilheyrir en til ekki allra annarra ökuréttinda.

Svo er aðeins breytt til samræmingar varðandi ökupróf og ökuskírteini, orðalag varðandi gildistíma og aldur og annað slíkt. Ég vísa til nefndarálitsins varðandi það, það eru minni háttar breytingar.

Svo komum við aðeins inn á réttindi til aksturs dráttarvéla og vinnuvéla. Gerð var krafa til þess í frumvarpinu að við þyrftum einnig ökuskírteini, bæði vinnuvélaréttindi og ökuskírteini. Við gerum þarna breytingar til samræmis við að það verði eins með dráttarvélar og vinnuvélar, að meðan maður er á lokuðum, afmörkuðum svæðum dugi að hafa vinnuvélaréttindi, þannig að við færum að til samræmingar.

Ég vil geta þess hér að það kom mjög skýrt fram fyrir nefndinni að dráttarvélar hafa í auknum mæli verið notaður á sambærilegan hátt og vörubílar og þeim ekið í almennri umferð með stóra og þunga vagna, en engar kröfur voru gerðar til þeirra ökumanna um aukin ökuréttindi. Með hliðsjón af umferðaröryggi beinir nefndin því til ráðherra að endurskoða kröfur til ökuréttinda ökumanna dráttarvéla sem eru í atvinnustarfsemi annarri en landbúnaðarstörfum, í almennri umferð. Ég tel mjög mikilvægt að brugðist verði við því. Það er mikið umferðaröryggisatriði. Það er einhver ástæða fyrir þessum kröfum og leyfum og öðru sem við setjum skyldu á varðandi akstur vörubifreiða og annarra slíkra atvinnutækja. Það hlýtur að vera ástæða til þess að það gangi jafnt yfir alla og hlýtur að eiga við varðandi önnur ökutæki líka.

Í þessum efnum leggjum við til, og beinum því líka til ráðuneytisins, skoðunarskyldu dráttarvéla sem komast yfir 40 km hraða, til þess að það sem er í almennri umferð falli undir það. Við erum ekki að gera einhverjar breytingar þarna varðandi núgildandi löggjöf þannig að ekki þurfi að uppfylla öll þessi leyfi og skilyrði varðandi landbúnaðarstörfin, heldur snýst þetta um atvinnurekstur í hinni almennu umferð. Það skiptir líka miklu máli að það sé á hreinu upp á samkeppnissjónarmið. Þau koma þarna inn. Þó að við séum fyrst og fremst að fókusera á umferðaröryggi hér verður náttúrlega líka að horfa til samkeppnissjónarmiðanna og beina því alveg skýrt til ráðuneytisins.

Varðandi tilkynningarskyldu lækna til trúnaðarlæknis Samgöngustofu þá kom alveg skýrt fram fyrir nefndinni og nefndarmenn eru sammála um að ekki sé hægt að afnema trúnaðarskyldu lækna, heimilislækna, með tilkynningarskyldu. Við tökum það út því að það var augljóst að það myndi ekki ganga upp.

Svo gerum við smábreytingar til þess að bregðast við nýsköpun, t.d. í ferðaþjónustu. Það þarf bara að gera ráð fyrir því í svona lögum að þarna sé ýmiss konar nýsköpun. Það skiptir ekki síst máli varðandi umhverfissjónarmiðin, af því að nú eru alltaf að koma fram nýjar lausnir í almenningssamgöngum og hvernig ferðamenn ferðast á milli staða og annað slíkt. Því þarf að vera svigrúm í löggjöfinni til að bregðast við því. Við gerum því þær breytingar í 71. og 74. gr. að hægt er að skrá og aka um götur á svokölluðum rafmagnslestum, eða dráttartækjum með fleiri en einn eftirvagn, allt að þremur eftirvögnum. Hér er skilgreint hvaða kröfur eru gerðar og annað slíkt. Það er hugsað til þess að bregðast við þessu.

Við komum aðeins inn á létt bifhjól í flokki I, sem eru litlar vespur sem ekki komast hraðar en 25 km á klukkustund og margt ungt fólk ekur um á. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur rætt þetta mál oft áður og sérstaklega árið 2015 þegar gerðar voru breytingar á umferðarlögunum til að ná utan um þetta. Borið hefur á því að börnin fari frekar óvarlega á þessum farartækjum og uppfylli ekki kröfur umferðarlaganna, sem getur þá valdið miklum óþægindum í umferðinni og hættum og jafnvel skapað stórhættu. Því er mikilvægt að ná utan um það. Við viljum þó ekki leggja það íþyngjandi kvaðir á þennan fararmáta af því að hann hvetur til þess að fólk noti sér umhverfisvænni samgöngumáta og dregur úr annarri umferð kringum skóla og öllu skutli foreldra og annað slíkt og hvetur til aukinna útivistar barna og annað slíkt. Við teljum mjög mikilvægt að þetta sé til staðar.

Við ítrekum fyrri ákvörðun umhverfis- og samgöngunefndar og hvetjum Samgöngustofu til að fara eftir lögunum af því að hún frestaði framkvæmd á þeim síðast. Við teljum enga ástæðu til þess. Lögreglan og Reykjavíkurborg telja mjög mikilvægt að farið sé eftir þessu, þá er ég að tala um að þessi hjól eru núna skráningarskyld samkvæmt lögunum og verða það áfram. Það er mikilvægt að sú skráningarskylda nái fram að ganga. Það auðveldar eftirlit með því um hvernig ökutæki er að ræða og hvaða reglur gilda um það ökutæki. Á meðan það er ekki skráningarskylt er meira gengið um tækið eins og það lúti reglum um reiðhjól, þannig að það er mikilvægt að þetta sé fyrir hendi. Svo eru þessi tæki líka skoðunarskyld. Það er annað sem við bendum á, bæði varðandi skólana, Samgöngustofu og samgönguyfirvöld almennt, að auka fræðsluna sem mest í kringum þetta, t.d. að fara með einföld námskeið inn í alla skólana og hafa fræðsluna svolítið lifandi. Það er mjög mikilvægt að það nái fram að ganga.

Ég hef aðeins komið inn á breytingar sem við höfum gert varðandi skoðun ökutækis og álagningu og innheimtu vanrækslugjalda, sem við gerðum smávægilegar breytingar á, bæði hvernig skoða mætti dráttarvélarnar og þessar rafmagnslestir og svo aðeins varðandi framkvæmd innheimtunnar. Ég vísa til nefndarálitsins um frekari útfærslu á því.

Svo er annað atriði sem við ákváðum að taka inn, það er skylda notkunar reiðhjólahjálma upp að 18 ára aldri. Í dag er skyldan miðuð við 15 ára aldur, en við teljum mikilvægt til þess að auka almenna hjálmanotkun að hækka það upp í 18 ára aldur, þangað til viðkomandi verður sjálfráða, þannig að það sé skýr krafa um hjálma. Með því að gera það þannig náum við kannski að breyta reiðhjólamenningunnni til hins betra og auka umferðaröryggið þannig að þetta þurfi ekki að vera eitthvert tískumál eða feimnismál hjá unglingum hvort þau eru með hjálm eða ekki, það er bara skýr skylda að nota hjálminn. Umræðan var um að færa þetta úr 15 upp í 16 ár svo allir krakkar á grunnskólaaldri myndu nota hjálm. Við teljum að það sé mikilvæg breyting, eins og við skylduðum alla til að nota öryggisbelti á sínum tíma. Við þurfum bara að taka skrefið til að breyta þessu og þróa hjólamenningu okkar, sem fer vaxandi, og hækka mörkin upp í 18 ár. Ef vel gengur getum við endurskoðað ákvæðið síðar.

Mig langar aðeins að koma inn á aðra breytingu sem varðar flutning vegaeftirlits. Heimild var í lögum fyrir ráðuneytið, í samstarfi við lögreglu, að færa svokallað vegaeftirlit frá lögreglu til annarra stofnana, eins og Vegagerðar eða Samgöngustofu. Þetta er svokallað vegaeftirlit, sérstaklega með þungum ökutækjum. Vigtararnir svokölluðu voru í upphafi lögreglan og Vegagerðin, þau sinntu þessu verkefni saman. Af ýmsum ástæðum, t.d. spurningunni um hver ætti að framkvæma hvað, var ákveðið að Vegagerðin tæki það alfarið yfir. Það eftirlit þróaðist svo og fór yfir til Samgöngustofu. Framkvæmdin á því var ekki nógu skilvirk af því að bæði vantaði starfsmenn Samgöngustofu miklar heimildir til að sinna umferðarlagabrotum og til þess að sinna þessu eftirliti fullkomlega og eins þurfti lögreglan að eyða miklum tíma í að rannsaka það eftir á, kalla menn í yfirheyrslu og annað slíkt, þannig að þetta var fært alfarið yfir til lögreglunnar. Hefur það reynst mjög vel og skilvirknin aukist.

Lögreglan hefur að sjálfsögðu allar þessar heimildir og dregur úr allri rannsóknarþörfinni og annað slíkt. Við teljum þess vegna ekki ástæðu til að hafa þessa heimild lengur í lögunum, af því að við teljum að framkvæmdin í dag sé eins og hún á að vera. Ef hún verður færð til fyrra horfs þarf hvort sem er að gera lagabreytingu til að auka þær heimildir sem þeir voru alltaf að kalla eftir, þannig að við sjáum ekki ástæðu til að hafa þetta í umferðarlögunum og leggjum til að það falli brott.

Svo var annað stórt mál sem var mikið rætt, það er hlutlæg refsiábyrgð eiganda eða umráðamanns ökutækis. Í dag er hlutlæg refsiábyrgð á ýmsum stöðubrotum, eða þar sem er gjaldskylda og annað sem beintengist bílnum og notkun bílsins, og getur tengst eiganda eða umráðamanni að einhverju leyti. Það er bein notkun bifreiðarinnar, eins og veggjöld í gegnum göng eða aðra vegi, svo er það lagning á bílastæðum þar sem vel er auglýst að sé gjaldskylda og hægt að greiða á staðnum og annað slíkt. Svo er líka hlutlæg ábyrgð sem tengist umsýslu bílsins, eigandi bílsins getur borið ábyrgð á notkun hans, eins og á skoðun og öðru slíku.

Að fara að útvíkka þessa hlutlægu ábyrgð í beinar refsingar, eins og fyrir of hraðan akstur og akstur gegn rauðu ljósi og annað slíkt, gengur eiginlega ekki upp í refsiréttarlegu tilliti. Við rökstyðjum það með því í nefndarálitinu að það myndi virka eins og hið opinbera væri farið að biðja einkafyrirtæki eins og bílaleigur að innheimta fyrir sig sektir vegna lögbrota, eins og fyrir of hraðan akstur og annað slíkt. Það er breyting á refsilöggjöfinni sem við vorum ekki tilbúin að gera og leggjum þess vegna til að bakka með það ákvæði. Hin hlutlæga ábyrgð eins og hún var heldur sér því. Ekki verður frekari hlutlæg ábyrgð tekin upp.

Svo eru aðeins lagfæringar varðandi refsiákvæðin til samræmingar þessari breytingu og öðrum. Gerð er aðeins skýrari heimild fyrir veghaldara til að fjarlægja auglýsingaskilti og ökutæki og smávægileg viðurlög í því sambandi til þess að við getum brugðist við. Mikið er rætt um neglda hjólbarða. Við komum inn á það í nefndarálitinu að það er alveg skýrt að lögreglan hefur refsiheimild núna samkvæmt reglugerð til þess að ganga eftir þeim reglum sem gilda um það. Ráðherra getur sett ýmsar kröfur í reglugerð um notkun negldra hjólbarða. Lögreglumenn hafa þá skýra refsiheimild til að bregðast við því.

En ég vil líka geta þess að þegar við horfum á svokallaðan nagladekkjatíma hafa bílaleigur og aðrir mjög stóran bílaflota. Og veður getur breyst, eins og við vitum. Það var nú bara allt á kafi í snjó síðast í gær á vissum stöðum á landinu. Þannig að það þarf að vera einhvers konar svigrúm frá þessum dögum. Það getur ekki verið þannig að menn þurfi að bíða eftir tilkynningum frá lögreglunni á Facebook um hvenær byrjað verði að sekta fyrir notkun nagladekkja. Taka þarf mið af því og það er ekki góð framkvæmd að fylgjast með Facebook til að vita hvenær maður er ekki lengur löglega á nagladekkjum.

Við gerum ekki miklar breytingar varðandi tjónabíla en vísum mjög sterkt til ráðuneytisins að bregðast við varðandi þá. Við höfum fengið mjög skýr dæmi um það í nefndinni að verið sé að kaupa tjónabíla á uppboðum, að gert sé við þá í einhverjum bílskúr á mjög ódýran og ófullkominn hátt, og svo hafi þeir fengið viðurkennt skoðunarverkstæði og bifvélavirki fenginn til þess að kvitta upp á að gert hafi verið við bílinn, til að taka tjónabílaskráninguna af. Við fórum aðeins yfir það í nefndarálitinu að það gæti verið brot á almennum hegningarlögum og gæti orðið til þess að viðkomandi missti starfsleyfi og annað slíkt. Við áréttum að ráðuneytið sjái til þess að eftirlit og reglugerðin haldi varðandi þetta.

Nú hef ég náð að fara á hálftíma yfir þessi helstu atriði og margt annað sem gert var og er hægt að tala mikið lengur um umferðarlög og umferðaröryggi.

Ég þakka nefndinni fyrir mjög gott samstarf við þetta frumvarp. Það er öll nefndin sem skrifar undir það. Þetta eru mikilvæg lög.

Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason skrifar undir álitið með fyrirvara.

Ég held að margir bíði eftir því að þessi löggjöf verði samþykkt og legg til að við samþykkjum þetta frumvarp með þeim breytingum sem nefndin leggur til.