149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[12:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Rétt aðeins áfram um hjálmanotkunina vegna þess að ég held að allir séu sammála um að æskilegt sé að börn undir ákveðnum aldri, sérstaklega þau sem eru enn ekki komin með fullt jafnvægi og eru að læra að fóta sig í umferðinni, noti hjálma. En síðan er spurningin hvar því sleppir. Ég er ekki viss um að við séum með nógu sterkan grunn til að taka þá ákvörðun hér og nú að miða eigi við 18 ár. Ég velti fyrir mér hvort rétt væri að leggja þessa tillögu til hliðar um sinn og skoða hana betur, t.d. með hliðsjón af því að hugmyndafræði barnasáttmálans snýst um að börn geti axlað ábyrgð í samræmi við aldur sinn og þroska. Í umferðarlögunum varðandi það að nota bílbelti ber bílstjóri ábyrgð á farþegum undir 15 ára, en yfir 15 ára bera þeir sjálfir ábyrgð á að festa beltin.

Svo langar mig að spyrja, því að ég les það ekki alveg nógu skýrt út úr nefndarálitinu, hvort það sé hugmynd framsögumanns að hjálmaskylda í framtíðinni nái upp allan aldursskalann, að gerð verði skylda á öllum aldursstigum að vera með hjálm á hjóli.