149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður minntist á mjög mikilvægt atriði um aukin réttindi barna til að taka þátt í ákvarðanatöku hvað líf þeirra varðar, þ.e. að það miðast ekki bara við 18 ár heldur fá þau, eins og barnasáttmálinn kveður á um, aukin réttindi smám saman. Líkt og kemur fram á barn.is fær unglingur aukinn réttindi í umferðinni þegar hann er orðinn 15 ára. Hann má t.d. reiða barn sem er yngra en sjö ára ef hann er vanur hjólreiðamaður og sérstakt sæti er fyrir barnið á hjólinu — annars er alltaf bannað að reiða farþega á hjóli — hann má taka létt próf á skellinöðru o.s.frv.

Þegar breytingin kom frá nefndinni um að verið væri að hækka skylduna upp í 18 ár kom það dálítið flatt upp á mig, enda mikið annað að gerast í þinginu. Ég bjóst einhvern veginn ekki við breytingartillögu í þá átt miðað við það sem Landssamtök hjólreiðamanna bentu á. Það kom því ákveðið fát á mig sem ég tek alveg á mig.

Það sem ég áttaði mig á í ræðu þingmanns var að ekki var leitað eftir athugasemdum frá því fólki sem breytingin hefur áhrif á. Ég vil þess vegna beina því til forseta að málið fari aftur til nefndarinnar svo hægt sé að fá athugasemdir hvað þetta varðar milli 2. og 3. umr. Ég leita einnig eftir athugasemdum við það frá hv. þingmanni, því að þetta er eitthvað sem við höfum sett okkur að gefa meiri gaum. Ég tek fulla ábyrgð á því að fát hafi komið á mig en ég er að sinna dálítið öðru gæðaeftirliti en endilega því að passa upp á að (Forseti hringir.) haft sé samband við alla umsagnaraðila.