149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en verð þó að taka undir þær áhyggjur sem hér hafa komið fram varðandi breytingar á lögum um hjálmaskyldu, ef við orðum það með þeim hætti.

Ég ætla ekki að tala gegn því að fólk noti hjálma. Ég held að það sé mjög mikilvægt, og það er sérstaklega mikilvægt að börn noti hjálma. Sjálf er ég móðir tveggja drengja sem hjóla gjarnan og ég á í miklum erfiðleikum með að fá þá til að nota hjálma öllum stundum. Og það er vissulega hjálplegt í uppeldinu að geta sagt að það sé í lögum og þess vegna beri að nota hjálma.

Ég veit samt sem áður ekki hvort það þjóni endilega hagsmunum okkar þegar við erum að berjast fyrir því að fólk noti hjól meira sem samgöngutæki að lögfesta slíka skyldu. Mér finnst t.d. mjög mikilvægt að ef fólk hjólar meðfram þjóðvegum eða meðfram umferðarmiklum götum, að fólk noti hjálma, algerlega. Og þegar fólk stundar hjólreiðar sem sport og hjólar þar af leiðandi hratt eða hjólar á malarstígum eða í fjöllum og annað, þá ætti fólk að nota hjálma. En við erum að reyna að ýta undir virka samgöngumáta innan bæjar, til að mynda viljum við stuðla að því að fólk noti almenningssamgöngur, og að það séu hjólaleigur við hliðina á stoppistöðinni svo fólk geti hjólað á næsta áfangastað og það geti gripið til hjólanna mjög víða, þá óttast ég að það að útfæra hjálmaskylduna enn frekar en gert er í dag geti orðið okkur til trafala og unnið gegn frekari og jafnvel mikilvægari baráttumálum, sem er að auka virkni fjölbreyttari samgöngumáta.

Mig langar að nota tækifærið og hvetja okkur öll áfram í þeim efnum. Það fellur kannski ekki beint undir umferðarlögin sem slík, en í bígerð er Evrópusáttmáli um hjólreiðar þar sem stefnt er að tvöföldun hjólreiða í Evrópu. Það er nú eitt af þessum fínu málum sem koma frá Evrópu sem ég tek heils hugar undir og ég held að við eigum að leggja okkar af mörkum til að hvetja enn frekar til aukinna hjólreiða.

Að því sögðu langar mig líka að nefna hér nýsköpun. Mig langar til að þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir vinnuna. Þetta er ítarlegt nefndarálit og ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum komin á þann stað að vera með endurskoðuð umferðarlög. Það hefur beðið lengi og þar af leiðandi er gott að sjá fram á að við séum að ljúka þeirri vinnu.

Þegar kemur að nýsköpun er fjallað sérstaklega um rafmagnslestir og ég fagna því. Ég hafði nú hugsað mér áðan að fara upp í andsvar við hv. framsögumann nefndarinnar en náði því ekki. En þá eru hér vangaveltur um hvort við séum ekki örugglega að huga að enn frekari nýsköpun og búa okkur undir að hér geti til að mynda verið sjálfkeyrandi bílar þannig að við á Íslandi séum opin fyrir því að prófa og ýta undir nýjar leiðir til að fjölga valmöguleikum þegar kemur að samgöngumálum.

Ég ætla að láta þessu lokið, forseti, svo við getum drifið okkur áfram í dagskránni og farið að ræða fleiri brýn mál sem beðið hafa mjög lengi.