149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að útskýra það aðeins frekar þegar ég tala um að það snúist kannski ekki aðallega um hversu langa leið verið er að fara, hversu mikilvægt er að vera með hjálm. Það er töluvert ólíkt að hjóla á miklum hraða, hvort sem er á hjólreiðastígum eða meðfram akandi umferð, eða hjóla til að mynda yfir Austurvöllinn og upp Hverfisgötuna á lægri hraða og innan um umferð sem er á lægri hraða líka.

Það er örugglega alltaf öruggara að vera með hjálm. Ég held að það sé ástæða til að mæla alltaf með því að fólk noti hjálm. En það er ekkert óöruggt við að hjóla. Hjólreiðar eru almennt bara mjög góður og öruggur samgöngumáti. Ég held að það sé svolítið punkturinn að við erum að hvetja fólk til að nota þann virka samgöngumáta og við verðum að leggja mikla áherslu á það. Þar af leiðandi geld ég varhuga við að skylda hjálmanotun eins og ég sagði áðan. En ég velti jafnvel fyrir mér hvort það ætti að hafa skylduna við grunnskólaaldurinn. Af umræðunum að dæma áðan virðist hv. umhverfis- og samgöngunefnd vera jafnvel að leggja til að það eigi bara að skylda hjálmanotkun á alla, alltaf.

Þá velti ég frekar fyrir mér nálgun sem lýtur að því á hvers konar vegum er verið að hjóla. Er t.d. full ástæða til að hafa þá skyldu að vera alltaf með hjálm, alveg sama á hvaða aldri fólk er, ef hjólað er meðfram þjóðvegi eða í umferð sem er á 60 km hraða eða meira?

Hvað jákvæðu hvatana varðar og kolefnismálin erum við auðvitað að því líka. Ég held að hv. þingmanni sé fullkunnugt um það. Það er líka aðferðin okkar til að skipta út orkugjöfum. Við erum með jákvæða hvata þegar kemur að kaupum á rafmagnsbílum, metanbílum eða slíku og höfum lagt töluvert upp úr því, bæði með því að taka af ýmsa tolla og gjöld, en ekki síður með uppbyggingu innviða eins og bílastæða og þess háttar þar sem er ódýrara að leggja rafmagnsbílum eða umhverfisvænni bílum. Í þeim málum þurfum við að beita öllum (Forseti hringir.) tiltækum ráðum sem mögulegt er.