149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún var ágæt og innblásin af krafti, eins og hv. þingmanni er lagið. Það sem ég hjó eftir fyrst var umfjöllun hv. þingmanns um lyfjamál, sem mér þótti mjög athyglisverð. Að lyfjum skuli vera eytt fyrir jafnvel hundruð milljóna á ári er vissulega alvarlegt mál sem þarf að fara ofan í kjölinn á.

Hér var samþykkt, a.m.k. gefin út í október 2015, lyfjastefna til ársins 2020. Ég er sammála hv. þingmanni um að auðvitað ætti að minnast á þessi mál í heilbrigðisstefnunni, vegna þess að lyf eru nú einn af stóru þáttunum í heilbrigðismálunum sem skipta verulegu máli og hefði verið eðlilegt að minnast á þau hér. Ég tek undir margt sem hv. þingmaður sagði, t.d. að ekkert skuli vera minnst á öldrunarmálin, hjúkrunarheimili, geðheilbrigðismál o.s.frv.

Það sem mig langar að fá álit hv. þingmanns á eru umsagnirnar. Það er sérstaklega áberandi að Læknafélag Reykjavíkur og Læknafélag Íslands gefa þessari stefnu falleinkunn og ganga svo langt að hvetja þingmenn til að samþykkja hana ekki, segja að þessi stefna sé í raun og veru í öngstræti og að veikleikinn sé skortur á samráði, sem er náttúrlega alvarlegur hlutur.

Er hv. þingmaður sammála þessum umsögnum? Telur hv. þingmaður að þörf sé á því að reyna að vinna þetta allt upp á nýtt?