149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er tvímælalaust vandamál, heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður en maður fær ekki tíma fyrr en eftir langa bið. Maður getur stundum mætt eftir kl. fjögur á daginn og komast þannig inn til eins konar bráðamóttökulækna þar. Annars eru önnur úrræði sem eru betur þekkt. Rúmlega þriðjungur þjóðarinnar mætir á bráðamóttöku á hverju ári, sem er óeðlilega mikið, en aðgengið að henni er í rauninni bara í kringum höfuðborgarsvæðið. Það vantar greinilega stefnu um það hvernig sjúklingar flæða um kerfið, hvert þeir eiga að fara fyrst og að það sé einhver sem getur tekið á móti þeim, sama hvar er á landinu, enda er talað um í stefnunni: Rétt þjónusta á réttum stað. Sem er alveg frábært markmið. Ég hlakka til að sjá aðgerðirnar sem stjórnvöld verða með þar.

Ég er ekki alveg jafn sammála því að jafnlaunastaðallinn sé svo rosalega góður, hann er ansi dýr og þungur í framkvæmd o.s.frv., en ég vona að hann skili einhverjum árangri. Hann skilar okkur alla vega upplýsingum.

Varðandi það að LSH sé dýrasta úrræðið er það ekki alveg rétt, eins og kom fram í skýrslu McKinseys. Að hluta til er hann það tvímælalaust, eins og t.d. varðandi fráflæðisvandann. Hjúkrunarrými þar eru að sjálfsögðu mjög dýr, en það sem hann gerir og það sem hann á að gera í þeim hlutverkum, þá er hann bara mjög skilvirkur og ódýr miðað við sambærilega spítala á Norðurlöndunum. Landspítalinn er mjög vel rekinn miðað við allar upplýsingar sem við höfum en glímir við ákveðin vandamál sem tengjast t.d. kjarasamningum lækna, hvernig þeir eru ekki fjármagnaðir, og gerðardómi hjúkrunarfræðinga, hvernig búið er að starfsaðstöðu. Og svo þessi fráflæðisvandi, sem er ákveðin hringavitleysa.

Á heildina litið lítur ekki svo rosalega flókið út að leysa þessi vandamál. En það að fá fagfólk (Forseti hringir.) þegar það vantar og það vantar hreinlega í samfélagið sem slíkt, að vísu er nóg af hjúkrunarfræðingum, það þarf bara að ná þeim aftur til starfa, en það er (Forseti hringir.) þrautin þyngri. Ég öfunda fólk ekki að leysa það verk.