149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[18:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Frumvarp til umferðarlaga er enginn smáræðis doðrantur, 118 blaðsíður með greinargerð og öllu. Það hefur verið í undirbúningi lengi og oft lagt fram áður, en ekki náð í gegn. Eins og frumvarpið kom til umhverfis- og samgöngunefndar var það með ýmsum atriðum sem umsagnaraðilar höfðu gert athugasemdir við og nefndin brást bara mjög vel við þeim athugasemdum sem fram komu.

Það var gert t.d. varðandi ölvunarakstur, að minnka hlutfallið í áfengismagni. Hvernig það var stillt til er, held ég, bara mjög góð niðurstaða þegar allt kemur til alls, engar breytingar í rauninni út frá núverandi fyrirkomulagi, heldur að það sé sett fram skýrar í lögum frekar en starfsreglum eða reglugerðum lögreglunnar. Svo er það hlutlæga ábyrgðin, sem er hérna í lokin, hún var einnig rædd mikið og kom mjög góð niðurstaða í því. Þriðja atriðið, sem hringdi viðvörunarbjöllum hjá mér, var þegar rætt var um heimildir til að taka lífsýni. Þar var farið eftir ábendingum Læknafélagsins og heildarniðurstaðan var þar líka með góð.

Það sem eftir stendur finnst mér vera tilfærslurnar á léttum bifhjólum með hjálmana og svona ýmis önnur smáatriði sem við erum enn þá að læra á. Það er mikil gróska í þessum geira og mikil þekking er á bak við umferðarlögin eins og þau eru. Verið er að fletja þann gamla grunn aðeins út og gera skýrari, t.d. í því tilviki hvernig þessi léttu bifhjól eru, þar eru EES-innleiðingar o.s.frv. sem kveða á um skráningarskyldu og ýmislegt svoleiðis. Allt gott og blessað með það. Gaman verður að sjá hvernig ráðherra tekur á því í kjölfarið.

Það eru skil á milli þess að nota venjuleg reiðhjól og að nota hjól með rafknúinni hjálp, hvernig það er allt á hjólreiðastígum þar sem ekki eru hraðatakmarkanir. Það getur verið alls konar umferð á hjólreiðastígum þar sem sumir eru á fleygiferð á meðan aðrir eru mun hægari og þar eru jafnvel börn líka sem rása um á litlu hjólunum sínum og svoleiðis. Spurning hvort ætti að huga eitthvað að ábendingum sem ég fékk eftir að nefndarálitið birtist og búið var að taka málið til umræðu. Mér fannst það alla vega góðar ábendingar. Þess vegna legg ég til að málið fari til nefndar á milli 2. og 3. umr. til að ræða þann hluta aðeins betur. Einnig hlutann með hjálmana þar sem verið er að breyta frá núverandi fyrirkomulagi hjálmaskyldu frá 15 ára upp í 18 ára aldur. Upprunalega var lagt til að gera þetta, sem eru reglur núna, að lögum upp að 15 ára, en breytingartillögur meiri hlutans eru þær að fjarlægja þau orð sem vísa til 15 ára. Öll börn hafi því skyldu til að vera með hjálm. Í rauninni eru ekki lögð fram nein gögn eða rök til stuðnings þeirri ákvörðun, enda kom hún mjög seint fram í ferlinu og ekki fyrr en að nefndinni var kynnt nefndarálitið og breytingartillögurnar. Það hafði aldrei verið rætt neitt sérstaklega um að hækka aldurstakmarkið úr 15 árum upp í 18 ár.

Í umræðunni núna hafa komið ábendingar og athugasemdir við það þar sem þetta varðar börn sem samkvæmt barnasáttmálanum eiga að fá eitthvað um sín mál að segja, og raunar bara öll mál, en þau hafa ekki fengið tækifæri til að gera athugasemdir við þetta. Landssamtök hjólreiðamanna voru með ansi góða umsögn og vel rökstudda sem varpaði ákveðnum efa á gildi þess að lögfesta hjálmaskyldu. Þar voru sjónarmið um hvaða áhrif það myndi hafa og sendu nefndinni skýrslu frá Noregi um hvernig það hefði letjandi áhrif á notkun á hjólum og hjólreiðum sem ferðamáta yfirleitt. Eins og sagt er í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„… liggja ekki fyrir afgerandi rannsóknir sem taka af allan vafa um það hvort skylda til notkunar reiðhjólahjálma við hjólreiðar dragi úr hjólreiðum eða ekki.“

Þessi gögn eru einfaldlega þannig að ekki muni vera hægt að taka af allan vafa í svona vísindalegum skilningi hvað það varðar. Í skýrslunni leikur vafi á að hjálmaskyldan sem slík sé nauðsynleg. Það voru allir sammála um að hvetja til hjálmanotkunar. En að gera það að lögum er samkvæmt þessum upplýsingum ekki endilega að skila árangri. Það eina sem breytist í rauninni, samkvæmt því sem kom fram í umræðum í nefndinni, er að lögreglan fer að fylgja með þeim hjólreiðamönnum sem eru núna milli 15 og 18 ára, sem annars væri bara að fylgjast með yngri börnum eins og það er núna, meta hvort viðkomandi sé undir 18 ára og stöðva viðkomandi, taka niður nafn og upplýsingar og allt svoleiðis og láta forráðamenn vita: Barnið þitt var ekki með hjálm á hjóli. Það er allt sem þetta gerir.

Einnig er lagt til, með leyfi forseta:

„… nefndin beinir því til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að endurskoða reglur með tilliti til hjálmaskyldu fyrir allt hjólreiðafólk.“

Að sleppa sem sagt aldurstakmörkunum alveg. Þetta er eitthvað sem kom ekki fram, ég sá það a.m.k. ekki í drögum að nefndarálitinu, kannski var ég bara eitthvað blindur hvað þetta varðaði, en ég sá þetta fyrst núna þegar ég las lokanefndarálitið eftir útprentun í nefndinni. Þetta er ansi mikill texti, og örugglega missti ég af því, en ekki var rætt um nákvæmlega þetta í nefndinni, svo ég muni eftir, og er nokkuð viss um að það bar aldrei á góma. Þá velti ég fyrir mér, hvað ef þetta verður niðurstaðan, að komið verði hjálmaskyldu á fyrir allt hjólreiðafólk? Hvað gerist þá? Fer lögreglan að stöðva alla fullorðna líka? Og hvað, láta forráðamenn vita? Nei, það eru engir forráðamenn þar. Hvað á þá að gera? Stoppa bara, taka niður nafn og búið? Eða á að fara að beita einhverjum refsingum, eins og varðandi öryggisbeltin, eða hvað? Þetta skilur eftir rosalega stórar spurningar.

Hin ástæðan fyrir því að ég myndi vilja sjá nefndina fjalla um þetta á milli 2. og 3. umr. er hvort nauðsyn sé á að færa hjálmaskyldu í lög alveg upp að 18 ára aldri eða hvort hægt sé að nota einhver úrræði sem skila jafnvel meiri árangri í betri samvinnu við þá aðila sem þessi lög eiga að ná yfir. Hvort hægt sé jafnvel að vinna betur að þessu fyrir yngra fólk. Nú hefur verið stungið upp á því í umræðunni að færa skylduna upp í 16 ára aldur þannig að það myndi ná öllum grunnskólanum. Ég veit það ekki, það gæti verið hugmynd.

Á sama tíma á ekki að þurfa lög á bak við þetta, á ekki að þurfa að beita lögreglunni sem einhvers konar hræðslutæki fyrir börn til að nota hjálma, alls ekki. Ef eitthvað er, þá er það ekki rosalega hjálplegt ímyndarlega séð fyrir lögregluna, að hún sé einhvers konar refsivöndur fyrir uppeldisaðferðir foreldranna. Mér finnst það frekar léleg afsökun því að lögreglan á að vera til þess að hjálpa börnunum, alveg tvímælalaust, frekar en að vera vondi kallinn sem gæti stoppað þau og kvartað í mömmu og pabba yfir því að þau séu ekki með hjálm.

Ég beini því eindregið til nefndarinnar að íhuga þetta betur, taka betri umræðu um þetta og kalla til umsagnaraðila frá því fólki sem þessi breyting kemur til með að ná til. Virkjum ungmennaráðin aðeins og sýnum í verki að við förum eftir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.