149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[18:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Hér undir lok þessarar umræðu langar mig að koma inn á nokkur atriði varðandi umferðarlögin. Það er nokkur skaði að því að sérfræðingur Miðflokksins í þeim efnum, hv. þm. Karl Gauti Hjaltason er fjarverandi akkúrat núna. Hann er sextugur í dag og óska ég honum til hamingju með daginn. Honum fyrirgefst því að vera ekki í salnum rétt í augnablikinu.

Atriði sem mig langar að koma inn á eru í fyrsta lagi mál sem hefur verið nokkuð rætt í dag og það er hin svokallaða hjálmaskylda. Ég vil bara skilja það eftir hérna að auðvitað er eðlilegt að hjálmaskyldan sé algild og nái yfir alla aldursflokka. Rétt eins og við gerum kröfu um það að bílbelti séu notuð, sama hvort akstursleiðin er stutt eða löng, sama hver hraðinn er ætlaður á leiðinni og þar fram eftir götunum, þá horfa mál þannig við mér persónulega að sömu rök eigi við um hjálmaskyldu og bílbeltin hvaða akstur ökutækja varðar.

Annað sem mig langar að nefna og halda til haga er atriði sem er komið inn á í meirihlutaáliti sem ég skrifa undir og snýr að tjónabílum. Það virðast hafa verið töluverð vanhöld á því hvernig háttað hefur verið eftirliti og skráningu tjónabíla sem hafa orðið fyrir tjóni, verið lagfærðir með skemmri skírn, skulum við segja, en virðast lifa í kerfinu án sérstakrar skráningar þannig að jafnvel geti komið upp sú staða að öryggisatriði bíls séu ekki virk með þeim hætti sem reiknað er með af því að hvergi liggur fyrir neitt um það að hlutur hafi verið lagfærður í kjölfar tjóns.

Nefndin afgreiðir þetta á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Nefndin beinir því til ráðuneytisins að taka reglugerð nr. 822/2004 til endurskoðunar og gera breytingar ef þarf og auka eftirlit svo að taka megi á þessu vandamáli af festu.“

Þar er átt við það vandamál sem eru tjónabílar sem eru fyrst og fremst seldir á uppboðum, sumir hverjir lagfærðir með skemmri skírn og svo seldir á almennum markaði án þess að sá sem kaupir eigi nokkurn möguleika á því að átta sig á að um tjónabíl sé að ræða.

Þriðja atriðið sem mig langar að koma inn á er hlutlæga bótaábyrgðin. Ég er ánægður með að henni skuli haldið óbreyttri frá fyrri lögum. Það voru töluvert íþyngjandi hugmyndir sem sneru að því að uppáleggja til að mynda bílaleigum að sjá um innheimtugjald sem leigurnar töldu erfitt fyrir sig að standa í innheimtu á. Ég held því að þar hafi náðst góð niðurstaða.

Síðasta atriðið sem mig langar að koma inn á er atriði er snýr að 50. gr. Áður var það þannig hvað kannabisefni varðar að þá gilti jafnt um hvort kannabis mældist í blóði eða þvagi. Nú er gerð sú breyting að eingöngu verður um að ræða blóðprufur, þær verði taldar sönnun þess að ökumaður hafi keyrt ökutæki undir áhrifum kannabisefna. Ég held að þarna hefðum við átt að halda okkur við það að þvagprufurnar héldu sínu gildi. Það hefur ótvírætt forvarnagildi að mínu mati. Ökumaður sem keyrir ölvaður heim til sín en kemst áfallalaust heim er auðvitað tekin af lögreglunni heima hjá sér út á plani ef hann næst þar. Sá sem lendir í myndavél fyrir hraðakstur fær sekt þó að hann skili sér heim óskaddaður í lok ökuferðar. Með sömu rökum má segja að sá sem mælist með kannabis í þvagi hafi verið tilbúinn á einhverjum tímapunkti til að taka áhættu af því að keyra bifreið án þess að áhrifin séu að fullu farin úr kerfinu. Það má leiða líkur að því.

Þetta eru þau fjögur atriði sem mig langaði að nefna í þessari umræðu. Mér heyrðist á fyrri ræðumanni að málið gengi til nefndar milli umræðna, mér gæti þó hafa misheyrst, en þá gæti maður kannski tekið eitt samtal um þetta inni í nefndinni. Að öðru leyti legg ég til að málið verði klárað og afgreitt á þeim nótum sem nú liggur fyrir með þessu meirihlutaáliti og það verði til töluverðra bóta hvað umferðarlögin varðar og umferðaröryggi í landinu.