149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

495. mál
[19:17]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þetta mál fjallar um stofnanir á málefnasviði félags- og barnamálaráðherra.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti og umsagnir eins og fram kemur í nefndarálitinu.

Frumvarpið er liður í efnislegri aðlögun á ákvæðum laga vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og felur í sér aðlögun að lögum sem heyra undir málefnasvið félags- og barnamálaráðherra að áðurnefndum lögum. Með frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á þeirri þjónustu sem hlutaðeigandi stofnunum er ætlað að veita.

Í þeim lögum sem lagðar eru til breytingar á með frumvarpinu er almennt gert ráð fyrir því að stofnunum sé aðeins heimil vinnsla persónuupplýsinga að fengnu samþykki einstaklingsins. Með frumvarpinu er lagt til að áskilnaður um samþykki falli brott og þess í stað skuli viðkomandi staðfesta að hann hafi verið upplýstur um fyrirhugaða upplýsingaöflun. Í því sambandi bendir nefndin á að í 8. tölulið 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga segir að samþykki í skilningi laganna sé óþvinguð, sértæk, upplýst og ótvíræð viljayfirlýsing hins skráða um að hann samþykki, með yfirlýsingu eða ótvíræðri staðfestingu, vinnslu persónuupplýsinga um sig. Þá segir í 2. tölulið 1. mgr. 11. gr. laganna að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil þegar vinnslan er nauðsynleg til að ábyrgðaraðili eða hinn skráði geti staðið við skuldbindingar sínar og nýtt sér tiltekin réttindi samkvæmt vinnulöggjöf og löggjöf um almannatryggingar og félagslega vernd og fari fram á grundvelli laga sem kveða á um viðeigandi og sértækar ráðstafanir til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu væri nauðsynleg, enda gæti samþykki ekki talist viðeigandi réttargrundvöllur fyrir heimild til vinnslu persónuupplýsinga af hálfu viðkomandi stofnana. Var í því sambandi bent á að þegar einstaklingur er í þeirri stöðu að þurfa að veita samþykki, enda sé það forsenda fyrir því að hann fái notið lögbundinna réttinda, geti samþykkið ekki talist óþvingað. Því væri nauðsynlegt að upplýsingaöflunin færi fram á grundvelli lagaheimilda en ekki samþykkis einstaklingsins.

Nefndin bendir þó á að með því að gera það að forsendu fyrir vinnslu persónuupplýsinga að viðkomandi hafi staðfest að hann hafi verið upplýstur um upplýsingaöflunina sé gengið lengra en lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gera ráð fyrir. Í því sambandi bendir nefndin á að frumvarpið geri ekki ráð fyrir því að það kunni í einhverjum tilfellum tilvikum að vera undanþága frá upplýsingaskyldunni í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB.

Nefndin leggur því til breytingartillögu þess efnis að viðkomandi stofnunum beri að upplýsa einstaklinga um fyrirhugaða upplýsingaöflun í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Í fyrstu efnismálsgrein 6. gr. frumvarpsins segir að umboðsmaður skuldara skuli afla þeirra upplýsinga sem hann telur nauðsynlegar, m.a. frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum, svo sem um tekjur, gjöld, eignir, skuldir, ábyrgðir, framfærslu- og húsnæðiskostnað sem og framferði einstaklingsins. Sömu hugtakanotkun er að finna í 9. og 11. gr. frumvarpsins. Við umfjöllun nefndarinnar voru gerðar athugasemdir við þá hugtakanotkun að vísað væri til „framferðis einstaklingsins“ og bent á að sú hugtakanotkun kynni að vera óskýr. Hugtakið kemur fram í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, nánar tiltekið í 2. mgr. 5. gr. um rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara. Með hugtakinu er fyrst og fremst vísað til þeirra ástæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð samkvæmt 6. gr. laganna.

Nefndin bendir á að í ákvæðunum kemur fram að heimildir umboðsmanns skuldara til upplýsingaöflunar takmarkast við þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar. Þá koma ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga framangreindum ákvæðum til fyllingar. Þar kemur fram sú meginregla að gætt skuli að því að persónuupplýsingar séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Nefndin telur því þær tilvísanir sem finna má í lögunum um greiðsluaðlögun einstaklinga til framferðis einstaklingsins nægilega skýrar, enda má draga skýra ályktun af öðrum ákvæðum þeirra til fyllingar hugtakinu. Þá telur nefndin að öðru leyti tryggt að umboðsmanni skuldara sé einungis heimilt að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að komast að niðurstöðu í hverju máli. Nefndin telur því ekki ástæðu til að víkja frá þessari hugtakanotkun, enda er hún í samræmi við önnur ákvæði laganna, afmarkað með fullnægjandi hætti hvaða upplýsingar umboðsmanni skuldara er heimilt að afla hverju sinni og tryggt að umsækjandi sé upplýstur um vinnslu upplýsinganna.

Fram kom athugasemd þess efnis að félagsmálanefndir sveitarfélaga hefðu þurft á upplýsingum að halda frá fleiri aðilum en taldir eru upp í 12. gr. frumvarpsins. Hefði velferðarsvið Reykjavíkurborgar m.a. þurft að kalla eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun, Lánasjóði íslenskra námsmanna, sjúkrasjóðum stéttarfélaga og Þjóðskrá Íslands.

Nefndin leggur til breytingu þess efnis að tilgreint verði hvaða gagna megi afla en ekki verði tæmandi talið frá hvaða stofnunum megi afla þeirra.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að heimildir Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til vinnslu persónuupplýsinga kynnu að vera of víðtækar. Hins vegar var bent á það að upplýsingamiðlunin og upplýsingaöflunin væri nauðsynleg til þess að stofnunin gæti sinnt lögbundinni þjónustu. Nefndin telur skýra lagaheimild vera fullnægjandi grundvöll fyrir þeirri vinnslu sem stofnuninni er heimil og í samræmi við 2.–4. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Nefndin telur því ekki tilefni til þess að gera efnislega breytingu á heimildum stofnunarinnar til vinnslu persónuupplýsinga. Að mati nefndarinnar er framsetning ákvæðisins hins vegar fremur óskýr og leggur nefndin til breytingu sem er ætlað að bæta úr þeim óskýrleika.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita hv. þingmenn Halldóra Mogensen formaður, Andrés Ingi Jónsson, Ólafur Þór Gunnarsson framsögumaður, Ásmundur Friðriksson, Guðjón S. Brjánsson og Halla Signý Kristjánsdóttir.