149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

tilkynning.

[11:23]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég viðurkenna að nú er ég orðin dálítið ringluð. Mig langaði aðeins til að svara hæstv. fjármálaráðherra sem furðar sig á því að það sé verið að taka umræðu um lengd þingfundar sem á svo sannarlega heima á fundi með forseta og þingflokksformönnum. Ástæðan fyrir því að við tökum þá umræðu hér uppi er sú að ekkert samtal átti sér stað á fundi með forseta í morgun heldur var forseti raunverulega að segja okkur hvernig hlutirnir yrðu. Þess vegna erum við að taka þessa umræðu hérna, það var engin leið til að ná einhvers konar samningum eða sátt eða samtali um lengd þingfundar.

Eitt sem ég er orðin mjög ringluð yfir er það að hæstv. sveitarstjórnarráðherra kemur hingað upp og talar um að við séum að reyna að liðka fyrir því að Miðflokkurinn þurfi ekki að tala í alla nótt um þriðja orkupakkann. Forseti var rétt í þessu að segja að eftir 15. og 16. dagskrárlið verði fundi slitið. Það stóð ekkert til að setja þriðja orkupakkann á dagskrá eftir það. Ég bið forseta um að staðfesta þetta. Var þetta misskilningur? Heyrði ég þetta eitthvað vitlaust áðan? Ef það er svona ofboðslega augljóst (Forseti hringir.) að við náum ekki að ræða í meira en sex, sjö klukkutíma um fjármálastefnu, hvers vegna ekki að koma til móts við okkur og segja bara að það verði fundað til miðnættis (Forseti hringir.) og svo fáum við að halda áfram á morgun ef þess þarf?