149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[12:21]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu fulltrúa allra þingflokka er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ljúka aðlögun íslenskra laga að honum. Samningurinn var fullgiltur 2016.

Dómsmálaráðuneytið vinnur nú að stöðuskýrslu til nefndar Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir sem gerðar hafa verið í því skyni að efna skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum. Við vonum að það gangi vel. Velferðarnefnd leggur áherslu á að ráðuneytin hraði vinnu sinni eftir föngum og forgangsraði í þágu þess að vinna frumvörp og mæla fyrir um þau réttindi sem samningnum er ætlað að tryggja.

Sem framsögumaður þessa máls vil ég þakka nefndarmönnum í velferðarnefnd fyrir einarðan stuðning við málið. Full samstaða var um að afgreiða málið með þessum hætti frá velferðarnefnd.