149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[12:35]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni þegar ríkisstjórnin stígur skref í átt til þess að efla aðstoð og fyrirgreiðslu við innflytjendur sem af ýmsum ástæðum koma til Íslands til dvalar eða búsetu. Samfylkingin styður þess vegna þingsályktunartillöguna. Á markvissa og samræmda vinnu við þá mikilvægu þætti hefur nokkuð skort því þúsundir nýrra Íslendinga bætast stöðugt í hópinn. Styrkja þarf þá innviði sem þegar eru fyrir hendi og samræma alla krafta þeirra sem vinna í málaflokknum. Heildarstefna í þessum málaflokki liggur þó ekki fyrir. Samfylkingin hefur lagt fram tillögu þess efnis sem ekki hefur enn fengið framgöngu í velferðarnefnd og bíður nýs þings. En við styðjum þessa tillögu að öðru leyti.