149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[12:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Líkt og rakið er í greinargerð með tillögunni er lagt til að sérstaklega verði horft til starfs Fjölmenningarseturs þegar starfsemi ráðgjafarstofu verði ákveðin og að stofan geti verið deild innan Fjölmenningarseturs.“

Þetta er skýrt í greinargerð, þetta er skýrt í nefndarálitinu og þetta kemur fram í fyrirvara frá hv. þingmanni Samfylkingarinnar. Þess vegna verð ég að velta fyrir mér hvernig í ósköpunum standi á því að hv. þingmenn Miðflokksins greiði atkvæði gegn þessari tillögu. Mér finnst það hneykslanlegt, ég verð að segja eins og er.

Það er erfitt að eiga við öll vandamálin sem fylgja útlendingamálum almennt. Hluti af því er hvernig við tökum á móti fólki og þegar fólk sýnir ekki stuðning lausnunum við þeim vandamálum sem það sjálft, þeir sömu hv. þingmenn, myndu sjálfsagt hafa áhyggjur af finnst mér það merki um ákveðna hræsni. Mér finnst það merki um að þeir hafi ekki lesið þetta mál sem þeir hafa ákveðið að taka ákvörðun um eða þá að þeir beri einfaldlega ekki næga virðingu fyrir málaflokknum til að takast á við hann af þeirri sæmd sem Alþingi ber.