149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að lögin gera ráð fyrir því að gengið sé frá formlegu samkomulagi við sveitarfélögin. Fram er komið að ekki tókst að ljúka því samtali fyrir framlagningu fjármálaáætlunar nú í vor. En við höfum tekið aftur upp þráðinn. Eins og sjá má af þessari tillögu til endurskoðunar á stefnunni erum við að byggja á því að á næstu árum verði engin afkoma hjá sveitarfélögunum ólíkt því sem áður var í gildandi stefnu, að gert var ráð fyrir að sveitarfélögin myndu skila um 0,2% til afkomu hins opinbera.

Það virðist vera sem sveitarfélögin hafi verið rekin í halla heilt yfir á árinu 2018 og að það sé nægt verkefni fyrir sveitarfélögin á þessu og næstu árum að halda sig, þegar horft er til heildarinnar, við núllið. Að þessu leytinu til göngum við út frá því að framlag sveitarfélaganna til afkomu hins opinbera á næstu árum verði ekkert og það er sömuleiðis löngu fram komið að við hefðum aldrei gengið eftir því með lagabreytingu að frysta framlög í jöfnunarsjóðinn án þess að það byggði á samkomulagi við sveitarfélögin. Þetta höfum við áður látið koma fram.

Mér sýnist að ekki muni takast neitt samkomulag við sveitarfélögin. Við þurfum þá að taka það með í reikninginn þegar við göngum frá samkomulagi, sem ég vonast til að við getum gert áður en þingið afgreiðir fjármálaáætlun.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að sveitarfélögin eru að taka á sig launahækkanir þeirra hópa sem eru neðar í launastiganum, en þeir munu sömuleiðis greiða útsvar (Forseti hringir.) og sveitarfélögin hafa notið mjög góðs á undanförnum árum af þeim kraftmikla hagvexti sem hefur verið í landinu.