149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:30]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ráðherra kallar eftir árangrinum. Árangurinn er ein versta niðursveifla í 30 ár að hruninu undanskildu. Ég var að kalla eftir skýrum svörum um hagræðingaraðgerðirnar. Hæstv. ráðherra sagði einungis fyrir fjórum dögum í viðtali, með leyfi forseta:

„Við ætlum að fara í hagræðingaraðgerðir. Bæði almennar aðgerðir en gerum eins líka ákveðna hagræðingarkröfu á kerfið í heild sinni.“

Ég er að kalla eftir svörum hér: Hvaða hagræðingaraðgerðum stöndum við frammi fyrir? Hvar ætlar ráðherrann að skera niður?

Og varðandi tekjuúrræðin sem hafa verið vannýtt: Var virkilega ástæða til að lækka veiðileyfagjöld með þeim hætti að þau nálgast tóbaksgjaldið í fjármunum? Er ástæða til að hafa hér lægsta fjármagnstekjuskatt á öllum Norðurlöndunum? Er ástæða til að hafa 27 milljarða kr. skattastyrk til ferðaþjónustunnar? Væru ekki rök að skoða t.d. auðlegðarskatt þegar eignaójöfnuður er að aukast ár eftir ár? Hér er verið að vannýta tekjuúrræði hins opinbera og þess vegna kalla ég enn og aftur eftir (Forseti hringir.) skýrari svörum frá ráðherranum: Hvar ætlar hann að skera niður? Það dugar ekki að segja að hann ætli að þurrka upp afganginn, því að hallinn og höggið er meira en það.