149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[15:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þetta gjörsamlega frábæra svar. Það er greinilegt að það skortir ekki skotsilfur í ríkissjóði og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að sú upphæð sem um ræðir er á pari við sirka hálfan loðnuaflabrestinn með vöxtum og vaxtavöxtum. Ég hef margoft sagt það og segi enn: Ég er hér eingöngu af einni ástæðu. Það er til að uppskera meira réttlæti fyrir almenning í þessu landi. Það er til að reyna að berjast gegn fátækt í landinu, eins og allir vita þegar. Ég lofaði því fyrir ári síðan, og stend við það, að þegar þessi dómur væri fallinn myndum við fara í annað mál sem myndi láta reyna á 69. gr. almannatryggingalaga, þar sem ég tel að verið sé að brjóta á öryrkjum. Nú skulum við sjá til, virðulegi forseti. Það gæti hugsanlega fleira óvænt komið upp á, þannig að kannski verður ný fjármálastefna boðuð að ári.