149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[16:11]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir fína ræðu. Við erum að velta fyrir okkur hvað eigi að gera við þær aðstæður sem blasa við og auðvitað kemur margt til greina. Mig langar að kalla eftir afstöðu hv. þingmanns til þeirra þátta sem myndu styrkja tekjuúrræði ríkisins og þá á ég sérstaklega við auðlegðarskatt sem við höfðum hér á árum áður en hefur núna fallið niður. Það væri fróðlegt að heyra skoðun hans á því og hvort til greina komi að innleiða slíkan skatt á nýjan leik.

Við sjáum að eignaójöfnuður á Íslandi, og nú er ég að fókusera á eignaójöfnuðinn en ekki tekjujöfnuðinn sem er talsverður hér á landi, er talsvert hár. Það eru nokkrar staðreyndir sem mig langar að minnast á í því samhengi: 1% ríkustu Íslendinga á meiri hreinar eignir en 80% Íslendinga. 1% á meira en 80%. Ef við stækkum aðeins hópinn, tökum 5% ríkustu Íslendingana þá eiga þau næstum því jafn mikið í nettóeignum og hin 95%. Við sjáum að hér er svo sannarlega vitlaust skipt, ef svo má segja. Tæplega helmingur allra hreinna eigna sem varð til á árinu 2016 rann til ríkasta 10% landsmanna — tæplega helmingur nýrra eigna rann til topp 10%.

Við sjáum að eignaójöfnuður er talsverður hér á landi og ein leið til að bregðast við honum á sama tíma og við værum að styrkja tekjuúrræði hins opinbera, til að m.a. mæta þeirri niðursveiflu sem við erum núna að upplifa, væri að innleiða auðlegðarskatt. Við gætum hugsanlega haft hann tekjutengdan, það væri ný útfærsla að hafa tekjutengdan auðlegðarskatt til að tryggja að það fólk sem greiddi skattinn hefði í raun og veru ekki bara eignir heldur líka einhverjar tekjur til að mæta þeirri skattheimtu. Það væri fróðlegt að heyra í stuttu andsvari hvort hv. þingmaður og jafnvel flokkur hans hafi tekið afstöðu til auðlegðarskatts.