149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst við sveiflast dálítið eins og lauf í vindi í þessum efnahagsaðstæðum, bæði á undanförnum árum, í uppsveiflunni, og nú í niðursveiflunni. Hagsveiflan upp á við var ekki til komin út af stefnu stjórnvalda. Það komu fleiri ferðamenn hingað og makríll kom syndandi hér inn í lögsöguna. Það voru ekki stjórnvöld sem sögðu: Við ætlum að fá meiri makríl inn í lögsöguna. Að sama skapi segja stjórnvöld nú að niðursveiflan sé ekki heldur þeim að kenna. Við erum einhvers staðar þarna inn á milli og blöktum eins og lauf í vindi og ekkert sem við gerum hefur greinilega áhrif á neitt.

En fræðin virka ekki þannig. Við höfum áhrif. Ég held að eitthvað í stefnu stjórnvalda hafi haft áhrif á það að ferðamönnum fjölgaði meira en annars hefði verið. Ég nefni Inspired by Iceland. Það var mjög gott framtak og hafði tvímælalaust áhrif. Ég held líka að sú fjármálastjórn sem hingað til hefur verið í uppsveiflunni hafi haft áhrif á það að við horfum á nákvæmlega þessi áform hérna, kannski ekki út af loðnunni en mögulega út af breytingum í ferðaþjónustunni.

Þess vegna verður að sýna varfærni. Það getur eitthvað komið upp sem við höfum ekki stjórn á. Varfærnin verður að sjást í því að til staðar séu fráviksspár, þar sem gert er ráð fyrir að brugðist verði við ef það raungerist, þá segi í stefnunni eða áætluninni: Þá gerum við þetta hér til að það komi ekki illa út fyrir okkur. Við sýnum fram á að með ákveðnum aðgerðum, ef við lendum í frávikum, skilum við okkur aftur á réttan kjöl. Það er sú varfærni sem vantar.