149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla aftur að vera aðeins meiri formalisti. Í fyrri umr. fjöllum við almennt um málið og rök ráðherra fyrir framlagningu þess. Þar erum við að greina og leggjast yfir grunnrök málsins frá hendi ráðherra. Í kjölfarið, á milli umræðna, fáum við umsagnaraðila og frekara álit sérfræðinga í stærra samhenginu. Smátími hefur þá farið í að tölugreina málið og ýmislegt annað. Það að geta komið inn í síðari umr., sem er nákvæmari umræða, út frá umsögnunum held ég að sé lykilatriði í hefðbundnu ferli þingmála. Það væri að sjálfsögðu gott að hafa umsögn fjármálaráðs sem viðhengi við fjármálaáætlun og fjármálastefnu en það er ekki nauðsynlegt. Það væri gott að hafa það en það passar alveg í hvort módelið sem er.

Ég get alveg tekið undir að það væri gott, það væri öðruvísi fyrirkomulag, ekkert slæmt að hafa það fyrirkomulag en það virkar alveg á hinn veginn líka. Ég bendi oft á að í sumum tilfellum geti hvort tveggja verið rétt. Fólk gleymir því oft þegar tveir eru að rökræða, að það er ekki bara annar sem hefur rétt fyrir sér, báðir geta haft rétt fyrir sér. Og báðir geta líka haft rangt fyrir sér, sem gleymist oft. Tilhneigingin er sú að horfa á einhverjar rökræður, þegar tveir eru að munnhöggvast, og segja að annar sé að vinna þegar báðir geta haft kolrangt fyrir sér.