149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022. Í dag vorum við að greiða atkvæði um heilbrigðisstefnu en núna erum við að tala um óheilbrigða fjármálastefnu, eiginlega veika fjármálastefnu, eiginlega bara fárveika fjármálastefnu. Og hvernig fæ ég það út? Jú, það sem vantar sérstaklega í þá stefnu er að gera eitthvað í því gígantíska og vanalega fjárhagslega ofbeldi sem eldri borgarar og öryrkjar eru beittir. Það sem er ekki að finna í núverandi fjármálastefnu né framtíðarfjármálastefnu er að gera eitthvað fyrir þá sem þurfa mest á því að halda. Enn og aftur eru brellur í þessu þannig að öryrkjar og eldri borgarar fá í mesta lagi lögbundin 3% neysluvísitöluviðmið og svoleiðis hefur það verið undanfarin ár. Samt stendur skýrt í 69. gr. almannatryggingalaga að það skuli hækka framfærsluna samkvæmt launaþróun en bara eftir neysluvísitölunni ef það er hagkvæmara. Þetta er brotið aftur og aftur.

Síðan er annað sem sýnir í ákveðnu samhengi hvers lags fjármálastefna þetta hefur verið og á hversu veikum grunni hún er byggð. Það var reiknað með 1% afgangi af fjárlögum, um 30 milljörðum kr. Nú er komið í ljós að það verður sennilega halli upp á um 35 milljarða. En hvar var náð í þessa 30 milljarða? Jú, það var náð í þá til öryrkja, með krónu á móti krónu skerðingunni. Það er sparnaður ríkisstjórnarinnar frá því að króna á móti krónu skerðingin var afnumin hjá eldri borgurum. Ef við horfum á það sem þeir ætla sér að láta í staðinn til öryrkjanna vegna skerðingarinnar, sem var frumvarp sem var lagt fram í dag, er það 10% af því sem þeir eru búnir að ná, 2,9 milljarðar. Við lok þessa árs verður ríkið búið að spara sér um 36 milljarða að lágmarki með krónu á móti krónu skerðingunni. Ef við tökum þau 10% sem menn eru að hæla sér af að ætla að setja til öryrkja og drögum þau frá verða eftir um 33 milljarðar. Og síðan á næsta ári ætla þeir af góðmennsku sinni að bæta við 1,1 milljarði, fara úr 2,9 í 4. Í lok þessa árs verða þeir búnir að spara sér 45 milljarða. Hvað ætla þeir þá að gera? Jú, þá er það komið undir 10% sem þeir ætla að skila til baka, undir 10%.

Það er líka komið á hreint að það á ekki að hætta krónu á móti krónu skerðingunni algjörlega, hún á að halda áfram út í hið óendanlega. Það er annað í því sem er alveg stórfurðulegt. Það er skattur á t.d. lífeyrissjóðstekjur. Skattur á lífeyrissjóðstekjur öryrkja er frá 73% upp í 100%. Ef þú ert með 60.000 kr. eða undir er 100% skattur, bara bang, allt farið, núll. Ef einhver fær 100.000 kr. út úr lífeyrissjóðnum þá erum við komin í 90%. Þetta er auðvitað algjört fjárhagslegt ofbeldi. Setjum það í samhengi við það að um áramótin 2015/2016 voru 300 Íslendingar með um 60 milljarða í fjármagnstekjuskattsstofn. Viðkomandi borguðu um 20% skatt af því eða 14 milljarða. Ef við snúum því aðeins við — þetta er fólk sem var með 5 milljónir upp í 15 milljónir í mánaðarlaun — þá erum við að tala um fólk sem á að lifa á 212.000 kr. eða undir. Það er skattlagt frá 73% upp í 100% á meðan þeir sem eru með kannski 5–15 milljónir greiða 22% skatt. Hvernig í ósköpunum getum við haft þetta svona? Ef eitthvað væri ættum við að snúa því alveg við. En það er auðvitað ekki gert vegna þess að búið er að finna breiðu bökin. Það er búið að finna þá sem eiga að borga skattinn og það eru eldri borgarar og öryrkjar.

Það er svolítið skrýtið ef við horfum á frumvarpið sem var lagt fram í dag um krónu á móti krónu skerðinguna að þar erum við komin með 65 aura á móti krónu. Við notum ekki aurana lengur. Ef við erum með 50 aura eða meira er það jafnað upp og ef við erum með undir 50 er það jafnað niður. En auðvitað þarf að hafa aura fyrir þá sem minnst hafa. Það er allt í lagi að uppreikna þá með verðlausum gjaldmiðli. Það sýnir líka að þeir eiga ekki að fá neinar hækkanir. Þeir eiga ekki að fá lífskjarasamningana. Það er búið að negla það inn, lífskjarasamningarnir eru ekki fyrir eldri borgara og öryrkja, það kemur ekki til greina. Þeir eru ekki einu sinni uppreiknaðir samkvæmt neysluvísitölu, það er ekki einu sinni verið að borga það frá 1. apríl. Þó að það verði uppreiknað samkvæmt neysluvísitölu um næstu áramót verður það samt ekki afturvirk.

Það sem kemur líka vel fram í fjármálaáætlun er að þar er hvergi leiðrétting, kjaragliðnunarleiðrétting fyrir eldri borgara og öryrkja. Hún er hvergi þar inni. Enn og aftur, alveg fram til 2022, eru þeir einu aðilarnir sem hafa ekki fengið leiðréttingu afturvirkt, ekki fengið hækkanir eins og aðrir fengu samkvæmt kjararáði. Þeir voru algerlega skildir eftir og það á enn einu sinni, alveg fram til 2022, að skilja þá eftir.

Það er algerlega ólíðandi að það sé inni í kerfinu að stærsti hópurinn á lífeyrislaunum frá Tryggingastofnun ríkisins eigi að lifa á 212.000 kr. eða minna. Það er algerlega óþolandi í því samhengi að í áætluninni er ekki heldur inni það sem eldri borgarar fengu fyrir rúmum tveimur árum síðan, 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur. Það er hvorki í fjárlögum þessa árs né framtíðarfjárlögum. Það á enn og aftur að svíkja öryrkjana um þá hluti. Mér er eiginlega orða vant. Tökum bara þetta skrýtna ofbeldi sem varðar t.d. skattalækkanir sem var verið að hæla sér af, skattalækkanir fram undan. Ef við förum aftur til 1988 var lífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins skattlaus. Þá átti fólk eftir 20–30% upp í lífeyrissjóð. Þetta segir okkur að það hafa orðið gífurlegar skattahækkanir á þá sem síst skyldi, eldri borgara og öryrkja. Þar er verið að skattpína fólk. Þetta er furðulegt bútasaumsskrímsli sem almannatryggingakerfið hefur byggst upp í á þeim tíma. Hver einasta ríkisstjórn á sínum tíma hefur bætt í bútasauminn, tekið meira. Þeir voru komnir svo langt að þeir voru farnir að taka meira til baka en þeir gáfu t.d. í bílastyrki, lyfjastyrki, alls konar styrki. Sem betur fer höfðu þeir þó vit á því að samþykkja á síðasta þingi að hætta því. En samt eru fullt af gildrum enn þá þarna inni, dánarbætur, alls konar bætur sem verið er að skerða algjörlega 100%.

Til hvers í ósköpunum högum við okkur svona? Mér er eiginlega orða vant. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að setja hlutina þannig fram að það sé lágmarkskrafa að eldri borgarar og öryrkjar fái einu sinni réttlæti, þannig réttlæti að þeir geti með einhverri reisn sagt að þeir hafi möguleika á því að á að lifa mannsæmandi lífi. Það getur ekki verið flókið. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að allir eigi rétt á að lifa mannsæmandi lífi og eigi til hnífs og skeiðar og helst afgang.