149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Þetta er einmitt staðan sem ætti að vera inni. Ef það væri rétt upp gefið og uppreiknað — maður var búinn að uppreikna það frá 1980 þegar lífeyrir var skattlaus og maður átti 30% upp í lífeyrissjóð — ef þetta væri uppreiknað til dagsins í dag væri verið að borga út um 310.000–320.000 kr. eftir skatt. Það er rétt tala. Það er það sem hún á að vera í dag. En það er auðvitað ekkert inni í fjármálaáætlun. Miðað við núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir eru svoleiðis hlutir ekkert á borðinu. Fólk verður að fara að átta sig á því að núverandi ríkisstjórn ætlar ekki og mun ekki bæta hag eldri borgara og öryrkja. Eldri borgarar og öryrkjar munu bera skarðan hlut frá borði. Hagur þeirra mun ekki batna meðan núverandi ríkisstjórn er við völd og það alveg fram til 2022 ef þessi tillaga fær að ráða. Vonandi verður það ekki svo lengi.