149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem maður saknar auðvitað úr þessari gagnrýni á fyrri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar eða fyrri fjármálastefnu og áætlun sem fylgdi henni eru einhverjar harðar tillögur um annað en að hækka skatta og auka útgjöld. Það eina sem ég hef heyrt er í raun og veru að þetta tvennt hefðum við átt að gera. Það hefði í sjálfu sér ekkert bætt afkomuna, það hefði ekkert aukið aðhaldsstigið að gera þetta tvennt eins og Samfylkingin lagði til. Þeir sem vilja gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki sýnt nægjanlegt aðhald á undanförnum árum eru í reynd að kalla eftir því að hér hefði verið skilað meiri afgangi, meira en þeim 400 milljörðum sem við skiluðum í afgang og nýttum til að greiða upp skuldir þannig að skuldir ríkisins eru komnar langt niður fyrir skuldaviðmið sem þó þótti nokkuð bratt á sínum tíma. Þetta hefur lagt grunninn að því að við höfum fengið bætt lánshæfismat og í dag bestu kjör sem ríkissjóður hefur nokkru sinni fengið.

Hvar eru eiginlega merkin um að við höfum verið að fylgja rangri stefnu í opinberum fjármálum? Ekki er það í verðbólgunni eða vaxtastiginu, ekki er það í skuldaþróuninni. Ekki er það í viðskiptajöfnuðinum. Ekki er það í atvinnustiginu eins og það hefur verið. Hvar eru merkin um að við höfum verið á rangri braut? Öll merkin, eins og Seðlabankinn sjálfur bendir á, eru um að við höfum verið að búa í haginn fyrir niðursveiflu. Nú erum við sem sagt í engum hagvexti á þessu ári og vel í stakk búin til að taka á málum með Seðlabankanum sem er að lækka vexti. Ég bendi mönnum á að lesa grein Gylfa Zoëga í nýjustu Vísbendingu þar sem sagt er: Þetta er í raun og veru á alla kanta — opinber fjármál, vinnumarkaður og peningastefna — í fullkomnum dansi við að taka á þessum aðstæðum. Það er einkunnin sem við erum að fá þegar nú hægir á í hagkerfinu. Við sjáum það auðvitað bæði á stöðu fyrirtækja og heimila að við höfum verið að nýta tímann vel til að búa okkur undir þessa stöðu.