149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:25]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu fyrirspurn, þetta er nefnilega svolítið kjarni málsins. Ég kom inn á það í ræðu minni að það er enginn öfundsverður af því að þurfa að reyna að stunda hagstjórn í hagkerfi þar sem er svona örgjaldmiðill sem er algerlega óáreiðanlegur með öllu. Ég var einhvern tímann búinn að taka saman heildarsveiflurnar í prósentum miðað við aðra gjaldmiðla og það var ótrúlegt að sjá. Ég man ekki hver talan var en þetta var ótrúlega mikið, það skipti ekki máli hvaða gjaldmiðil maður bar krónuna saman við.

En nú er ég með upp á vegg hjá mér á skrifstofu minni flokkunarkerfi Alþjóðabankans um gjaldmiðilskerfi. Mér finnst svo merkilegt að Ísland fer leið sem nánast ekkert annað land fer. Flest lönd af þessari stærðargráðu og flest lönd yfir höfuð eru annaðhvort hluti af myntbandalagi eða eru með gjaldmiðil sinn bundinn við einn af þessum stóru, tveimur til þremur gjaldmiðlum. Það er aðferð sem ég held að sé mjög vænlegt fyrir okkur að taka upp, t.d. skriðgengi. Það eru gallar við öll fyrirkomulög, en að binda þetta svona væri alla vega skref í áttina að því að taka jafnvel síðar upp evru, sem ég myndi persónulega styðja, mér finnst það vera góð hugmynd. Þó svo að flokkur minn líti svo á að við þurfum að eiga samtal í samfélaginu um framtíð okkar gagnvart Evrópusambandinu þá er ég þeirrar persónulegu skoðunar að við eigum heima þar inni. En við verðum að búa til leið þangað og leiðin, alveg sama hvort við endum þar inni eða ekki, hlýtur að hefjast á því að búa til einhvern stöðugleika fyrir gjaldmiðilinn okkar þannig að allt hitt fari að ganga upp. Að tengja okkur við t.d. skriðgengi við evru væri gott skref fram á við.