149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þingfundur hefur staðið frá því í morgun kl. 9.30 og einu hléin sem gerð hafa verið á þingfundi eru vegna þingflokksfunda, sem eðlilega þurftu að eiga sér stað vegna stórrar og mikillar atkvæðagreiðslu. Eðlilega þurftu þingflokkar að hittast. En mig langar að spyrja hvort ekki verði gert hálftímamatarhléi núna, eins og alla jafna er gert. Við vitum að þetta mál verður að sjálfsögðu klárað. Það er ekki spurning. En ég ætla að spyrja hæstv. forseta hvort liggi þá ekki ljóst fyrir að engin ástæða sé fyrir því að keyra þetta á hörkunni, ekki nema meiri hlutinn hér á þingi ætli strax að lýsa yfir einhverju stríðsástandi, sem kæmi mér mjög á óvart því að hér er ekkert annað í gangi en mjög málefnaleg umræða um nýja og breytta fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem er svo sannarlega ekki vanþörf á að ræða.

Ég vil einfaldlega spyrja: Er ekki eðlilegt að gert verði hálftímamatarhlé þannig að þingmenn fái tækifæri til að næra sig? Ég veit að unnið hefur verið eitthvað að mat (Forseti hringir.) og ég bind miklar vonir við að hér verði okkur sýnd málefnaleg sanngirni og gert hálftímahlé á þessum fundi.

(Forseti (BrH): Forseti hyggst nú gera hlé á þessum þingfundi. Við gerum hlé til kl. 20.)