149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Núgildandi stefna var aldrei óraunhæf vegna þess að hún byggði á opinberum forsendum og var raunhæf miðað við þær. Það sem hv. þingmaður virðist ekki skilja, sem er svo mikið grundvallaratriði, er að við erum ekki að koma með nýja stefnu vegna þess að stefnan sjálf hafi brostið á grundvelli þeirrar hagspár sem hafi verið í gildi og standist enn. Nei, við erum að bregðast við breyttum forsendum. Það heitir ekki að skipta um stefnu. Stefnan er áfram hin sama; að vinna að stöðugleika, vinna að jafnvægi, sýna varkárni, horfa til langs tíma o.s.frv. Það er stefnan. Svo þarf maður að aðlaga sig aðstæðum hverju sinni. Hv. þingmaður getur því ekki talað eins og við höfum að óbreyttum öllum forsendum tekið upp einhverja nýja stefnu. Ég skil ekki að menn skuli festa sig í þessu tali.