149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrri fjármálastefna, núgildandi fjármálastefna, gerði ekki ráð fyrir möguleikanum á niðursveiflu. Þess vegna stöndum við hérna, af því að ekki var gert ráð fyrir því áður. Það var gallinn í fyrri stefnu. Þess vegna erum við núna með nýja stefnu, vissulega u.þ.b. sömu markmið, það er smávegis bætt við útgjöld á óvissu o.s.frv. en samt er þetta ný stefna. Þegar á að taka upp nýja stefnu eru sérstök skilyrði sem þarf að uppfylla áður en það er hægt, þessi tiltæku úrræði. Mig langaði að spyrja hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra aðeins út í þau úrræði sem mögulega væri hægt að grípa til. Mér dettur í hug lántökur, niðurskurður eða tekjuöflun og langaði aðeins að velta fyrir mér með hv. þingmanni núna hvað annað stæði til boða til að koma til móts við svona niðursveiflu, hin tiltæku úrræði. Er sem sagt einhver útfærsla á tiltæku úrræðunum? (Forseti hringir.) Ég sé ekki að það sé einu sinni reynt að nota tiltæku úrræðin til að koma til móts við niðursveifluna og þar af leiðandi, ef það er ekki reynt að nota þau úrræði, hvernig er þá hægt að segja að þau hafi ekki dugað til?