149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:21]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þessi orð. Við Evrópusinnar þurfum að hafa hátt og hærra ef við ætlum að ná árangri. Við megum ekki sætta okkur við að víglínan í íslenskri pólitík eigi að snúast um EES-samninginn. Hún á að snúast um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki.

Mér finnst líka áhugavert í umræðunni að halda á lofti hverjir hagnast á að hafa krónuna. Það má ekki gleyma því að það er til fólk sem hagnast á þessum óstöðugleika, sem annars vegar getur varið sig fyrir honum og hins vegar hagnast á krónunni. Við sjáum að vextir eru hærri á Íslandi vegna krónunnar, því að krónan er alltaf að falla í verði. Hún er alltaf að rýrna í verði af því að hún er slappur gjaldmiðill.

Vextir eru ekkert annað en verð á peningum. Hvenær er gott að hafa háa vexti? Það er þegar maður á pening. Fyrir fjármagnseigandann, þann sem á pening á Íslandi, getur krónan verið þokkalega góður gjaldmiðill því að vextir eru háir og svo fær hann verðtrygginguna ofan á. Hann er tryggður, hann er með belti og axlabönd. Þetta eru þeir hagsmunir sem hafa varið krónuna. En venjulegt fólk, stóri massinn úti í samfélaginu, gerir ekkert annað en að tapa á íslensku krónunni. Það sýnir sagan og þarf engan stjarneðlisfræðing til að sýna fram á það.

Ég sé enga sanngirni í því að Þorsteinn í Samherja fái að gera upp í evrum á sama tíma og fiskvinnslukonan sem vinnur hjá honum fær launin í krónum sem rýrna í hverjum einasta mánuði í verði. Mér finnst engin sanngirni í því. Ég held að þetta sé ein af stóru spurningunum sem lúta að utanríkismálum en ekki síst því hvernig við bætum lífskjör á Íslandi, þ.e. hvernig við losnum við krónuna. Það tók Slóveníu tvö og hálft ár að taka upp evru. Eftir ESB-aðild getur aðildarríki fengið aðgengi að svokölluðu ERM II, þ.e. evrópsku gjaldmiðilssamstarfi. Ríkið þarf að vera u.þ.b. sex mánuði þar inni, svo þurfa að líða tvö ár. Við getum því verið komin með evru, alvörugjaldmiðil sem býður upp á stöðugleika, eftir tvö og hálft ár ef við viljum en einhvern veginn þarf að taka þá ákvörðun. Þetta er stór ákvörðun (Forseti hringir.) og við þurfum að undirbúa hana vel en nú er einfaldlega komið nóg með þessa blessuðu krónu. Dagar íslensku krónunnar eru taldir, herra forseti.