149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

störf þingsins.

[10:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Nýútkomin er skýrsla um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi, sem er mjög sjokkerandi lesning. Fram kemur að síðasta skýrsla var gerð um þetta efni árið 2017. Ég held að líklega séu búnar að fara fram fimm eða sex sérstakar umræður hér á þingi um stöðu lögreglunnar, en ekkert hefur gerst. Engin bót hefur verið ráðin á aðstöðu hennar til að takast á við þessa ógn.

Hér er talað um svokallaða gífurlega hættu, sem er hástig hættu vegna starfsemi skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi. Þar af eru fjórir afbrotaflokkar sem eru í kategoríunni „svart“ eða á hástigi. Það er fíkniefnainnflutningur, það er smygl á fólki og mansal og það er peningaþvætti. Næsthæsta stigið eru vinnumarkaðsbrot og farandbrotahópar. Þá starfsemi stunda, auk innlendra aðila, glæpaflokkar af sjö þjóðernum, sem segir manni að þörf er á að beita bæði forvirkum rannsóknarheimildum í meira mæli en gert hefur verið.

Bæta þarf tækjakost lögreglu. Fjölga þarf í lögreglunni. Talið er að 15% af mannskap lögreglunnar ætti á hverjum tíma að vera að sinna frumkvæðismálum. En það er ekkert svigrúm til þess hér eins og er vegna þess að það vantar um 80 lögreglumenn bara hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta getur ekki haldið áfram að vera svona, herra forseti. Það getur ekki verið. Ráðherra þessa málaflokks og ríkisstjórnin verða að taka á þessu máli nú þegar. Mér skilst að lesa skuli skýrsluna með heildstæðum hætti. Hún er 37 bls. Það tekur hálftíma. Þannig að ég ráðlegg mönnum að hætta að lesa og tala en byrja að gera.