149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[10:44]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það liggur auðvitað ljóst fyrir að við erum með 2,5 milljarða til ráðstöfunar og þegar fjöldinn er mikill er deilitalan hærri. Það er líka misjafnt hversu miklar tekjur viðkomandi sækir þannig að það er erfitt að reikna mál hvers og eins einstaklings fram í tímann. Við vitum auðvitað ekki hvaða áhrif það hefur til framtíðar að draga úr skerðingunum með þessum hætti. Mun það leiða til þess að þeir sem þiggja þessar greiðslur í dag muni sækja vinnu eða ekki? Ég held að jafnvel þó að við færum í það að afnema skerðingarnar að fullu, sem ég rakti í máli mínu að var gert gagnvart eldri borgurum og við munum stefna að sameiningu bótaflokka í nýju frumvarpi, þá þurfi meira til. Það þarf breyttan vinnumarkað. Það þarf breytta hugsun, bæði á opinberum vinnumarkaði og almennum. Það er næsta verkefni og það er kannski stærsta verkefnið að fá fram breytingar hvað það snertir til framtíðar.