149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir andsvarið. Það er alveg greinilegt að það kom þó fram að það voru þeir sem settu á þessa skerðingu til þess þá að reyna að koma í veg fyrir það væntanlega að viðkomandi héldu áfram að vinna. Ef hv. þingmaður hefur ekki tekið eftir því að ég stend hér sem málsvari þeirra sem höllustum fæti standa veit ég ekki hvort það er út af því að hv. þingmaður er orðinn heyrnarskertur, þó að ég sé þá sjónlaus. En hins vegar verður því ekki á móti mælt að þeir sem eru öryrkjar og eru með 212.000 kr. og gætu mögulega farið út á vinnumarkaðinn, er haldið þarna inni með þessu skerðingarkerfi. Það sem við erum að horfast í augu við núna, þó að ég muni eðli málsins samkvæmt greiða atkvæði með þessari hungurlús, þá er það svo, eins og minn ágæti samflokksmaður Guðmundur Ingi komst svo vel að orði í gær: Í stað þess að sparka þrisvar í þá gerum við það tvisvar.

Auðvitað hefur ekki neitt verið gert fyrir hina og það hefur líka augljóslega komið fram í þessum ræðustóli. Þeir sem eru með 212.000 kr. útborgað á mánuði fá ekki eina einustu krónu fyrir sína lögbundnu leiðréttingu 1. janúar á næsta ári, sem ég tel líka að hafi alltaf verið brotið á þeim núna undanfarin ár af því að þeir hafa einungis verið látnir fylgja vísitölu neysluverðs í stað þess að fá að fylgja launaþróun í landinu. En að það hafi verið leiðrétt í þessu háa Alþingi eða að eitthvað hafi verið gert í því eða yfir höfuð eitthvað hlustað á það sem við höfum verið að segja — svarið er einfaldlega: Nei, það hefur ekki verið gert.