149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:47]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar. Ég tek alveg undir að þetta er óréttlátur skattur sem var settur á með illri nauðsyn á sínum tíma. Það er oft þannig að þegar skattar eru settir á, eða gjöld, sem eiga að heita tímabundnir vill það ílengjast vegna þess að einhverra hluta vegna heldur ríkið í allar svona bætur eins lengi og unnt er. Þess vegna kom ég með þessa spurningu: Hvað getur þingmaðurinn séð fyrir sér í þessu, hvað það taki langan tíma að klára þetta mál?

Eru ekki tíu ár eða meira síðan þetta var sett á? Það er langur tími í lífi fólks. Þó að ég hefði viljað sjá þetta fara alla leið get ég í sjálfu sér glaðst yfir þó þessu skrefi. Það er búið að bíða eftir því töluvert lengi en núna er búið að brjóta þennan ís. Allt sem hvetur fólk til vinnu, allt sem hvetur fólk til að taka þátt í hinu daglega lífi hefur lagast og má að sjálfsögðu lagast enn meira. Þess vegna bind ég vonir við að við náum að vinna okkur út úr þessu með því að fá fólk til að vera virkara. Að sjálfsögðu er einhver hluti fólks það veikur að fólk getur ekki þegið þá aðstoð og þarf á fullum bótum að halda og það er það sem hefur kannski ekki, eins og kom hérna fram áðan, (Forseti hringir.) náð mikilli umræðu síðustu misseri.